144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var hjartnæmt að hlusta á hv. þingkonur í andsvörum áðan bera lof og skjall hvor á aðra. Ég vil taka fram að ég er sammála þeim báðum. Ég tel að það sé örlátt og örlætisgerningur af hálfu nefndarinnar að standa saman að því að flytja þetta mál sem eins og hv. framsögumaður nefndarinnar var rétt í þessu að segja að væri bara redding til nokkurra mánaða. Er það ekki rétt hjá mér að hæstv. ráðherra hefur haft tvö ár til að leysa málið? Sá ágreiningur sem er á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins lá ljós fyrir strax á vordögum 2013. Ráðherrann hefur haft tvö ár og hefur ekki leyst hann enn. Það sem meira er, hann kom hér til að leggja fram stefnu sína að ósk og kröfu þingmanna og það var fróðlegt. Hæstv. ráðherra sagðist gera sér góðar vonir um að leggja fram frumvarp sem birti stefnu hans varðandi málefni tónlistarskólanna næsta haust. Það kom fram að starfshópur er að störfum sem vinnur tilteknar hugmyndir sem hæstv. ráðherra lýsti.

Ég rifja það upp fyrir hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur að undir lok máls síns sagði hæstv. ráðherra þegar ég spurði hann út úr um þessi mál að það væru líka aðrar hugmyndir sem væri verið að ræða. Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann sem hefur verið hér um nokkurt skeið: Telur hún í ljósi þessa og þess hversu skammt ráðherrann er kominn og hversu óljósar hugmyndir hann virðist hafa og lausar í reipunum, að það sé nokkur von til þess að hæstv. ráðherra verði með frumvarpið reiðubúið þegar kemur að hausti? Blasir þá ekki við að þessi vandræðagangur muni halda áfram allt næsta ár? Hvernig líður hv. þingmanni við þá tilhugsun að sennilega þarf hún ásamt fleirum að koma aftur með nýtt frumvarp? Þá get ég aftur glaðst yfir því (Forseti hringir.) að heyra hv. þingkonur bera lof hvor á aðra (Forseti hringir.) fyrir það hversu duglegar þær eru að redda vesalings ráðherranum.