144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er galsi í mannskapnum, heyrist mér, kominn svona kvöldgalsi í fólk.

Vissulega er það svo að við verðum kannski að vera vongóð í hjartanu um að ráðherrann, þrátt fyrir skamman tíma, geti komið þessum óljósu hugmyndum sínum í framkvæmd, og starfshópurinn er að störfum. Nú veit ég ekki og ég man ekki til þess að fram hafi komið hjá ráðherra hvenær þessi starfshópur ætti að skila, ég held að það hafi ekki gert það, komið hafi fram tími á því. Það er kannski eitt af því sem við gætum gert í allsherjar- og menntamálanefnd að ýta á að tillögur um fyrirkomulag náms og framvindu á framhaldsstigi liggi fyrir fyrr en seinna. Ráðherrann framlengdi náttúrlega þann samning sem hér um ræðir fram til ársloka 2014 og hefur lítið gert í því í sjálfu sér. Það má vel vera að þessi deila við Reykjavíkurborg hafi verið það erfið að mönnum hafi ekki tekist að leysa hana. En ég held að það sé, eða það er mín skoðun, að ráðherrann og ráðuneytið hafi ýtt þessu frá sér og þetta hafi einhvern veginn beðið þangað til bara allt í einu þurfti að taka á því og þá var það gert með þessum hætti.

En stefna ráðherrans um tónlistarskólana, ég hef auðvitað ákveðnar áhyggjur af því eins og ég sagði áðan. Þó að hann hafi vissulega létt á þeim áhyggjum í gær með því að segja að nemendur gætu lært þetta um allt land þá fannst mér hann tala á stundum í kross og þess vegna mundi ég auðvitað vilja fá að sjá þær hugmyndir fljótlega. Ég held að við hérna án þess að mæra hvor aðra, ég og hv. formaður allsherjarnefndar, gætum kannski kallað svolítið eftir því í nefndinni að þær tillögur starfshópsins mundu liggja fyrir innan skynsamlegs tíma þannig að við þyrftum ekki að standa frammi fyrir þessu aftur.