144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka nefndinni fyrir að taka það að sér að flytja þetta mál. Á sama tíma verður maður að gagnrýna það að ráðherrann sé ekki á tveimur árum búinn að koma málum þannig fyrir að þetta komi hingað inn með öðrum hætti og komi þá inn sem hluti líka af framtíðarsýn í málaflokknum. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að það er allt of mikið um það hjá þessari ríkisstjórn að hún komi seint og illa með mál inn í þingið sem veldur því í þessu tilfelli að nefndin þarf að flytja málið svo að ráðherrann þurfi ekki að fara með það með afbrigðum í gegnum þingið. Frumvarpinu er dreift 9. júní og starfsáætlun lauk 30. maí. Þetta er eitt dæmi af svo ótal mörgum þar sem við horfum upp á gríðarlega sleifarlag í vinnulagi og ofboðslegan hægagang í þessum verkefnum.

Eins og fram hefur komið í ræðum hér og í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur þá lá fyrir frumvarp í ráðuneytinu, sem var kynnt á vordögum 2013, um heildarsýn í málaflokknum og framtíðarfyrirkomulag, þannig að það var ekki eins og menn kæmu að tómum kofanum. Þar að auki byggir þetta mál á samkomulagi sem gert var árið 2011 milli þáverandi ríkisstjórnar og sveitarfélaga þar sem ríkið kom inn með 250 nýjar milljónir og síðan komu sveitarfélögin með 230.

Það sem þarf kannski líka að skoða er að við erum að fjalla um mál sem við hefðum getað unnið svo mikið betur. Menn hefðu getað gefið sér betri tíma og gert það á mun skýrari hátt og komið með það hingað inn sem hluta af heildarpakka og framtíðarsýn, svo það sé sagt.

Virðulegi forseti. Inn í þá vinnu alla saman verður maður líka að velta því upp hvers vegna ríkið sér ekki einfaldlega um þetta framhaldsnám eins og annað. Ríkið er með framhaldsskólana á sínu forræði og það væri þess vegna lógíst og eðlilegast að ríkið sæi líka um þetta framhaldsnám eins og annað. Þetta lítur svolítið út eins og að menn séu að koma sér hjá því að greiða fyrir það og láta sveitarfélögin gera það í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Ég hefði viljað að við ræddum þessa hluti, en ráðherrann gefur voða lítið færi á því. Það er eins um þetta mál og önnur, t.d. breytingar á framhaldsskólanum — hverjir hafa aðgang að honum? Umræðan um sameiningu háskóla fer ekki fram í þessum sal, hún fer fram einhvers staðar alls staðar annars staðar. Við erum að sjá hér vísi að stefnubreytingum í gegnum fjárlagafrumvarp og fleira í þeim dúr. Hæstv. menntamálaráðherra verður að fara að koma inn í þennan sal og eiga við okkur samtal um stóru línurnar í menntapólitíkinni. Það á líka við um þetta mál. En það er aldrei gert. Menn koma sér fimlega hjá því til dæmis núna að nefndin öll flytur þetta mál og þá þurfa menn auðvitað ekki að svara fyrir það hvers vegna þessi tvö ár hafa ekki verið nýtt betur til að vinna með einhverja framtíðarsýn.

Það vantar löggjöf um tónlistarnám. Það hefur ekkert sést á þessum tveimur árum sem núverandi ríkisstjórn hefur setið, eins og ég sagði, þrátt fyrir að frumvarp hafi verið kynnt á netinu vorið 2013. Það hefur verið gagnrýnt. Það væri kannski ágætt að heyra það frá einhverjum sem þekkir betur til að það var gagnrýnt að menn væru að fjalla um stig sem er í raun og veru ekki til, þ.e. hið svokallaða 4. stig. Það er ekki nein námskrá og þetta stig hefur ekki orðið til formlega enn þá þótt við séum hér að fjalla um það.

Annað sem ég velti fyrir mér og það sem er kannski nýtt í þessu er fjármögnunin frá varasjóði húsnæðismála. Ef við skoðum hlutverk varasjóðs húsnæðismála á vefsíðu velferðarráðuneytisins þá segir þar að með stofnun hans hafi varasjóður viðbótarlána verið lagður niður og verkefni hans flutt til varasjóðs húsnæðismála. Honum er ætlað að veita rekstrarframlög til sveitarfélaga vegna hallareksturs félagslegra leiguíbúða eða íbúða sem hafa staðið auðar í lengri tíma. Honum er jafnframt ætlað að veita framlög til sveitarfélaga vegna sölu félagslegra eignar- og leiguíbúða á almennum markaði og líka að hafa umsýslu með tryggingasjóði vegna byggingargalla og fleira í þeim dúr. Ef menn eru tilbúnir að taka 30 milljónir þaðan og setja í tónlistarskólana þá velti ég því fyrir mér hvert sé orðið hlutverk þessa sjóðs. Þegar maður les þetta og kynnir sér hver verkefni sjóðsins hafa verið þá hafa þau ekki síst snúist um, eins og kom líka ágætlega fram í máli hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur hér áðan, fjölmörg svæði hér á landi sem eru svokölluð varnarsvæði þar sem er töluvert af auðu húsnæði, þaðan sem töluverður brottflutningur hefur verið. Þessi svæði þurfa ekki síst á þessum framlögum að halda, varnarsvæði og byggðir um landið sem búa við þetta.

Maður spyr sig því þegar menn ákveða að flytja fjármuni úr varasjóði húsnæðismála í þetta verkefni hvað verði um hann. Er verkum hans lokið? Þurfa menn ekki lengur þessi framlög? Ég heyri ekki betur en svo sé ekki. Það kemur kannski einhver og leiðréttir mig vegna þess að ég heyri ekki betur en hlutverk þessa sjóðs sé enn mikið. Munar sjóðinn þá ekkert um þessa fjármuni? Þótt verkefnið sé gott, og við styðjum það og þetta mál allt saman, þá verða menn samt að gæta sín á því að það gangi ekki á eitthvað annað eins og gæti verið í þessu tilfelli.

Virðulegi forseti. Ég held, eins og komið hefur fram, að þetta sé mikilvægt mál þótt ég gagnrýni ákveðna hluti í umgjörðinni og hvernig það kom hingað inn og sömuleiðis skort á heildarsýn og framtíðarsýn. Þetta er mál gott og við vitum að það skiptir máli. Tónlistarnám í öllum sveitarfélögum er gríðarlega mikilvægt og ekki síst í minni sveitarfélögunum um landið þar sem það er, eins og fram hefur komið í máli annarra þingmanna, oft hjarta þeirra samfélaga, þ.e. tónlistarnámið og tónlistarlífið. Þess vegna skiptir máli að vel sé búið um það. Það er einmitt þess vegna sem við hljótum að kalla eftir því að menn séu með skýra framtíðarsýn, komi málum fyrir með skýrum hætti í löggjöf sem tekur heildstætt á þeim og að fjármögnunin sé örugg og trygg til lengri tíma svo að menn séu ekki í reddingum á síðustu stundu vegna þess að þeir voru værukærir og sinntu ekki að ljúka málum eins og við horfum upp á hér. Okkur stendur ekki á sama um tónlistarnámið og því köllum við þingmenn eftir þessu og gagnrýnum það að menn hafi ekki tryggt þetta og unnið betur á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að málið var fyrst kynnt.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en við munum halda áfram að kalla eftir þessu samtali. Mér finnst hæstv. menntamálaráðherra þurfa að fara að koma hingað í þingið og ræða oftar við okkur um hvert stefnt er í menntamálum almennt. Við ræddum það mikið hér fyrir jól að verið væri að fara með stefnubreytingar í gegnum þingið þegar við vorum að ljúka fjárlögum. Það voru gríðarlegar stefnubreytingar sem menntamálaráðherra fór með í gegnum þingið þá hvað varðar framhaldsskólana í landinu og við höfum aldrei fengið neitt samtal eða neina framtíðarsýn um hana. Ráðherrann kom svo hingað í gær og ég fagna því að hann hafi komið og reynt að lýsa fyrir okkur hvernig hann sæi fyrir sér framtíðina í tónlistarnáminu. Hann lýsti hugmyndum sem voru alveg ágætar en þær eru gríðarlega umfangsmiklar og munu kosta töluverða fjármuni. Ég held að það sé ekki seinna vænna en að hann fari að kalla eftir því að eiga samtal við stjórnmálamenn og líka tónlistarfólkið sjálft um það með hvaða hætti þetta eigi að vera og hvernig eigi að framkvæma það. Þetta er svo sem það næsta sem hann hefur komist í því að eiga hér einhvers konar samtal um framtíðarmúsík, ef svo má segja, í menntamálum — það er viðeigandi að kalla það framtíðarmúsík í þessu máli. Mér finnst ráðherrann skulda okkur að koma hingað og tala við okkur um stóru línurnar og styrkja betur samtalið við okkur hér. Það gengur ekki að koma með stórar stefnubreytingar í gegnum fjárlög eða að koma hingað eftir tvö ár af aðgerðaleysi og biðja nefndina um að flytja svona mikilvæg mál vegna þess að menn hafa ekki nýtt tímann. Það gengur ekki. Við hljótum að sýna ráðherra mikla óánægju með það á sama tíma og við tökum að okkur að flytja þetta mál og fylgja því hér í gegn til þess að skjóta tryggum stoðum undir það tónlistarlíf sem við þekkjum í landinu og námið er þar undirstaðan.