144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gæti vel verið hluti af skýringunni því að þegar svona mál er lagt fram af nefnd þá þarf ekki kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins og þar af leiðandi þarf það ekki að fara í gegnum þá síu. Það er auðveldara að koma því þannig inn til þingsins enda um sympatískt mál að ræða sem ég held að við séum öll sammála um að skipti gríðarlega miklu máli að hafa í lagi.

Ég er samt ekki til í að sleppa ráðherranum svo auðveldlega vegna þess að hann er búinn að hafa tvö ár til þess að koma skikki á þessi mál og hann hefur ekki nýtt þau. Við heyrðum ekkert af þessu máli fyrr en starfsáætlun var lokið og þinginu átti að ljúka. Menn voru komnir með allt í bál og brand og í virkilegum vandræði með þetta. Auðvitað vita þeir að við höfum engan áhuga á því að ljúka þingi og skilja tónlistarskólana í landinu eftir í vanda. Þar af leiðandi hlaupum við undir bagga. Ég efast ekki um að hluti af ástæðunni er að fara auðveldu leiðina. Ráðherrann sleppur þá líka við það að þurfa að eiga eitthvert alvörusamtal við okkur við flutning málsins um framtíðarsýnina, þó að hann hafi komið lítillega við hér í gær og rætt málin. Menn sleppa líka við kostnaðarmat. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að tvö ár eiga fyllilega að duga mönnum til að sýna í það minnsta á spilin. Ráðherra hefur ekki gert það. Menn hafa ekkert vitað hvert stefnir í þessum málaflokki. Ég tel að annaðhvort hafi ráðherra bara gleymt því, ekki sinnt þessu eða hvað skal segja? Einhver er ástæðan fyrir því að við erum með þetta mál hér.

Ég held að það væri oft gæfulegra ef þingið fengi það í sínar hendur (Forseti hringir.) að afgreiða mikilvæg mál í staðinn fyrir að ráðherrarnir væru að því.