144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að þegar ríkisstjórnin hefur staðið þannig að málum að það er neyðarástand í tónlistarskólunum og menntamálaráðherra hefur látið reka á reiðanum í tvö ár og framlagningarfrestur mála liðinn á þessu þingi þá er auðvitað mikilvægt að stjórnarandstaðan hlaupi undir bagga og sýni þá ábyrgð að tryggja það að þingið útvegi lágmarksfjármuni til þessa málefnis fyrst svo illa er komið fyrir þessu mikilvæga námi sem skiptir þúsundir og aftur þúsundir barna í landinu ákaflega miklu máli.

Ég spyr þingmanninn um það fyrirkomulag að leitað sé eftir fjármunum sem eru í raun og veru til vörslu í öðru fagráðuneyti, ráðuneyti sem hefur líka átt nokkuð erfitt með að sækja fjárveitingar til þeirra verkefna sem menn hafa haft hug á þar, þ.e. félags- og húsnæðismálaráðuneytið, og ekki síst til húsnæðismálanna þar sem maður hélt raunar að væri skortur á fé en ekki beinlínis í digra sjóði að sækja til að skammta í önnur verkefni. Finnst þingmanninum það ekki býsna kindarlegt að farið sé inn í húsnæðismálin og teknir þaðan peningar til þess að leysa þennan vanda?

Þá aðeins um það sem nefnt var, að menntamálaráðherra hafi verið iðinn við að reyna að gera grundvallarbreytingar á menntakerfinu án þess að koma með þær inn í þingið. Hefur þingmaðurinn áhyggjur af því að hann freistist til þess að reyna það líka með tónlistarnámið, þ.e. gera þar einhverjar grundvallarbreytingar án þess að koma með þær inn í þingið og leggja þær þar fyrir?