144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt komið að kjarna málsins þegar hún sagði að hér væri verið að bjarga fyrir horn fyrirséðum vanda. Það er nefnilega akkúrat það sem við erum að fást við. Þetta var algerlega fyrirséð, en menn gerðu ekkert í því. Menn létu þetta danka þangað til að komið var í óefni, nefndin tekur þetta að sér og þá gerast svona undarlegir hlutir, menn verða einhvern veginn að bjarga fjármunum í þetta og ríkisstjórnin ákveður að gera það svona. Ég held að það sé óvenjulegt að peningar séu fluttir með þessum hætti milli ráðuneyta, það er frekar innan ráðuneyta sem menn færa til. En auðvitað eru til dæmi um þetta, þó nokkur dæmi, það er bara ákvörðun hverju sinni.

Öguð umsýsla fjármuna ríkisins, segir hv. þingmaður. Já, auðvitað stefnum við öll þangað, en það er eitt sem ég skil ekki í þessu máli. Ef við horfum fram hjá þessum 30 milljónum sem koma úr varasjóði húsnæðismála og segjum ókei, svona lagað getur gerst og við þurfum bara að verða við því og við erum sammála því að gera þetta enda erum við meðflutningsmenn á málinu, þá er það eitt, en horfum á stóru myndina. Hvernig má það vera að frá vori 2013 hafi legið fyrir frumvarp sem felur í sér heildstæða löggjöf utan um tónlistarnámið en menn hafi ekkert gert í því í tvö ár og ekki heldur sinnt því að fjármagna þennan samning og fjármagna tónlistarnámið heldur komi með þetta mál í þingið algjörlega á lokametrunum þegar er allt komið í voll og stefnir í mikinn fjármögnunarvanda hjá tónlistarskólunum?

Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessari nálgun almennt. (Forseti hringir.) Það virðist vera, þegar kemur að þessari ríkisstjórn, að menn eigi bara mjög erfitt með að skoða einhverja heildarmynd og fylgja henni eftir.