144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er sem betur fer komið fram í seinni hálfleik þessa kjörtímabils og það er einmitt þá sem maður fer að horfa á það sem fyrirhugað var að gera og ná utan um. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur verið með heildarendurskoðun tónlistarmenntunar á Íslandi á sínum þingmálalista, ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Nú erum við að sigla inn í þriðja þingveturinn í haust og enn bólar ekki á heildarsýn ráðherrans, það eina sem við heyrum erum sögusagnir. Því miður eins og þegar framhaldsskólinn er annars vegar þá þurfum við að reiða okkur annars vegar á sögusagnir og hins vegar á stefnumörkun sem á sér oftar en ekki stað undir flaggi fjárlagafrumvarpsins á hverjum tíma. Það er óásættanlegt. Það er algerlega óásættanlegt. Eitt er að það sé ekki góð stjórnsýsla, en annað er að þetta er ekki heldur góð pólitík vegna þess að stefnumörkunin fer fram með lokuðum og óaðgengilegum hætti.

Forseti. Það hefur komið fram að félagsmálaráðuneytið gerir ráð fyrir því að ráðstafa nákvæmlega þessu fé, þ.e. þessum 30 milljónum, til húsnæðismála í samræmi við nýtt húsnæðiskerfi, það hefur komið fram á fundum allsherjar- og menntamálanefndar. Þá vakna auðvitað spurningar um það hvort til standi að bæta varasjóði húsnæðismála tap á sínu ráðstöfunarfé með einhverju enn öðru móti. Hvernig sér fólk eiginlega fyrir sér þessa hringekju sem þá er að fara af stað? Það hefur komið mjög skýrt fram að hlutverki sjóðsins er ekki lokið, alls ekki. Það væri synd að segja að það væri snyrtilegt yfirbragð á þessum tilflutningi fjár. En ég vil taka það fram að markmiðið er mikilvægt og tónlistarskólarnir (Forseti hringir.) eru starfsemi sem verður að vera undir fullum seglum.