144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[21:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þarna gæti verið komið tilefni til að við sendum skriflega fyrirspurn til ráðherra félags- og húsnæðismála og óskum eftir upplýsingum um hvernig menn sjá hlutverk þessa sjóðs fyrir sér vegna þess að við erum komin í þá stöðu núna að við getum ekki beðið um sérstakar umræður. Við getum ekki farið í munnlegar fyrirspurnir, en við getum óskað eftir þessu og fengið skriflegt svar þegar líður á sumarið. Ég held að það sé mikilvægt. Það er auðvitað óþægilegt að vera að hlaupa til til að bjarga góðu máli, mikilvægu og nauðsynlegu máli sem allir eru sammála um, með því að seilast í sjóði utan ráðuneytis sem líka er ætlað mikilvægt hlutverk. Þannig að þetta skilur mann eftir í örlítið óþægilegri stöðu. En engu að síður þá virðast ráðherrarnir meta það svo að þetta gangi í þetta sinn og allt gott með það, en þá skulum við líka biðja um yfirlit yfir það. Hvað er það sem sjóðurinn á eftir að fjármagna? Hvað þýðir það að hann missi 30 milljónir? Við þurfum að fá þessar upplýsingar betur upp á borðið að mínu mati.

Það breytir því ekki að síðan er hitt stóra verkefnið og það er að reyna að fá fram og ná einhverri samstöðu um framtíðarsýn í þessum málaflokki. Ráðherrann lýsti í gær ágætum hugmyndum um framhaldsnám með stofnun sérstaks skóla sem yrði rekinn af ríkinu ef ég skildi hann rétt, það var allrar athygli vert. Við mundum vilja eiga samtal við hann um þetta og aðrar hugmyndir. Þetta er hins vegar alveg ófjármagnað og þetta voru dýrar hugmyndir sem lýst var í gær. Ef menn ætla að ná að hrinda þeim í framkvæmd á næstu árum þá er ekki seinna vænna en að fara að vinna að þeim og vinna þeim fylgi. (Forseti hringir.) Það verður best gert þverpólitískt vegna þess að þá þarf að afla fjár til þeirra og eins og við vitum er (Forseti hringir.) haldið fast um budduna í fjármálaráðuneytinu.