144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[22:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er þekkt fyrir gæsku sína í garð alls þess er hrjáð og smátt. En er umburðarlyndið ekki farið að ganga full langt þegar mér finnst hv. þingmaður nánast bera blak af hæstv. ráðherra fyrir að vera ekki kominn fram með þessa stefnu? Má ég í örstuttu máli leggja hann á mælikvarða hennar sjálfrar sem menntamálaráðherra í tíð síðustu ríkisstjórnar?

Í miðri kreppu þegar sú ríkisstjórn þurfti að skera niður hvar sem hægt var að koma hnífi að til þess að afla fjár til að fylla upp í hroðalegt gat sem skapaðist í ríkisfjármálunum eftir bankahrunið, þá tók það hana þó ekki nema tæp tvö ár að leysa þennan hnút. Nú hefur hæstv. menntamálaráðherra, í tíð sem hans eigin ríkisstjórn lýsir sem einni mestu tíð hunangs og gósens, ja alveg frá því sögur hófust, ekki klárað vandamál sem var hlutfallslega mun smærra að vöxtum og hefur þó haft til þess tvö ár. Er það ekki full mikið af hv. þingmanni að halda heila ræðu án þess að vanda um við eftirmann sinn í starfi? Hv. þingmaður gerði aðeins að umræðuefni þá hugmynd sem hæstv. ráðherra lagði fram, en hún er algjörlega hálfköruð. Mundi hv. þingmaður vera ósammála mér þegar ég segi, eftir að hafa skoðað ræðu hæstv. ráðherra frá því í gær nokkuð náið, að um sé að ræða hugmynd sem leysi að engu leyti þennan vanda? Ég fæ ekki betur séð en þar sé um að ræða hágæðanám nánast á háskólastigi, með tengingu við menntaskólana og framhaldsskólana, þar sem þjappað er saman úrvalsnemendum sem eru að búa sig undir lengra nám á þessum sviðum. En hvernig á það að leysa þann fjárvanda sem blasir við í dag (Forseti hringir.) og birtist í því að tónlistarskólarnir vita ekki hvort þeir eiga fyrir launum um hver einustu mánaðamót og þar sem skólagjöld fara (Forseti hringir.) stöðugt hækkandi út af þessari óvissu? Hvað segir hv. þingmaður um það og tengingu við hugmynd hæstv. ráðherra?