144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[22:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson má ekki láta blíðlegt mæli mitt blekkja sig því auðvitað hef ég verið einstaklega gagnrýnin á þá stöðu sem er uppi í málefnum tónlistarskólanna, en ég get þó ekki annað en lýst skilningi á því að þetta verkefni hefur tekið langan tíma, ekki bara hjá núverandi hæstv. ráðherra, heldur líka hjá þeim sem á undan honum kom og þeim sem á undan mér kom í því embætti. Þannig að þann skilning stend ég alveg við. En auðvitað geta skólarnir ekki búið við þessa óvissu.

Hvað varðar hins vegar það sem hv. þingmaður nefnir um framtíðarsýn hæstv. ráðherra þá get ég tekið undir að hún er mjög óljós. Eins og ég skil hana þá kallar hún á gríðarlegt aukafjármagn inn í framhaldsstigið, háskólastigið eða fjórða stigið sem á væntanlega eftir að skilgreina í lögum um tónlistarskóla þannig að það sé til samræmis við það sem hefur verið skilgreint í löggjöf um hina almennu skóla. Þá vinnu sem var komin mjög langt vorið 2013 hefði ég kosið að sjá kláraða fyrr og ég benti á að hæstv. ráðherra hefði sagt fyrir meira en ári að von væri á frumvarpi haustið 2014. Nú er komið vor 2015 og enn er von á frumvarpi, lengi von á því.

Sé sú framtíðarsýn greind sem hv. þingmaður nefnir þá sé ég ekki annað en að þar væri boðað, herra forseti, að framhaldsnám í tónlist yrði stutt í ólíkum skólum í kringum landið sem og skólum á höfuðborgarsvæðinu, en aukinheldur yrði settur á laggirnar sameinaður skóli sem hefði sérstöku hlutverki að gegna. Ég veit, herra forseti, að maður á ekki að spyrja hv. þingmenn sem veita manni andsvar, en stenst þó ekki freistinguna að spyrja hv. þingmann hvort það hljóti a.m.k. ekki að vera eðlileg túlkun á orðum hæstv. ráðherra í gær.