144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[22:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur fyrir að ástæða þessa máls er auðvitað ekki síst örðug fjárhagsstaða tónlistarskóla í Reykjavík. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður nefndi í fyrri ræðu sinni í kvöld að þar höfum við séð fram á til að mynda hærri skólagjöld á nemendur, þróun sem skólastjórar þessara skóla eru allsendis ekki sáttir við því það gerir það að verkum að færri nemendur hafa hreinlega tök á því að sækja nám í þeim. Þannig að ég get ekki annað en tekið undir þann skilning og mér heyrist við hv. þingmaður vera sammála um að þörf er á auknum fjármunum, bæði í fyrirkomulag tónlistarnáms eins og það er núna en ekki síður ef ætlunin er að fara að gefa í. Sú framtíðarsýn sem hæstv. ráðherra lýsti í gær finnst mér allrar athygli verð, en það er framtíðarsýn sem kostar fjármuni, ekki síst af því að við erum auðvitað með háskólanám í tónlist innan Listaháskóla Íslands. Og hvernig er staða hans eftir niðurskurð undanfarinna ára? Listaháskóli Íslands hefur nú ekki riðið feitum hesti frá fjárlögum, herra forseti, og hefur ekki hlotið neinar aukafjárveitingar að ráði þegar við höfum rætt háskólamál í fjárlögum.

Við þurfum að horfa heildstætt á allt ferli tónlistarmenntunar. Það þarf að gerast í samspili ríkis og sveitarfélaga. Við þurfum að horfast í augu við það að bara það að festa það fyrirkomulag í sessi sem var mín tillaga á sínum tíma í frumvarpinu sem var kynnt vorið 2013 kostar ákveðna fjármuni. Þar hefur ríkið lagt til fjármuni eins og hér hefur komið fram í umræðunni. En hvað ef við ætlum að fara að bæta við það fyrirkomulag? Þeim spurningum þarf auðvitað að svara. Þess vegna ítreka ég það að þessar tillögur þurfa að koma hér inn ekki seinna en (Forseti hringir.) fyrir miðjan september 2015.