144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[22:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það fer gjarnan svo í umræðum af þessu tagi að fólk sé svolítið á sama stað, ef það má orða það þannig. Ég vil halda áfram með þessar upplýsingar eða hugmynd sem við heyrðum af þegar við fengum þetta litla frumvarp, ef ég má leyfa mér að kalla það það, um að bjarga tónlistarskólunum fram að áramótum. Þá berast okkur til eyrna og í blöðum og við þingmenn fáum líka upplýsingar um það í pósti að það séu miklar hugmyndir uppi um að breyta kerfinu og koma á fót sérstöku háskólastigi fyrir afburðanemendur, ef svo mætti kalla. Ekki ætla ég frekar en ræðumenn á undan að setja mig upp á móti því, en hlýtur það ekki líka — mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að hún þekkir vel til þessara hluta — að vera komið að því að farið verði með tónlistarnám eins og aðrar námsgreinar í skólum þannig að sveitarstjórnarstigið beri einfaldlega ábyrgð á grunnskólakennslu og ríkið á framhaldsskólakennslu, eins og mér skilst að Reykjavíkurborg túlki þetta samkomulag enda er þar væntanlega miklu meira framhaldsnám í boði en í flestum öðrum sveitarfélögum?