144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[22:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er eins og margt annað flóknara en það virðist í fyrstu. Ég skil að þetta geti verið erfitt vegna þess að skólarnir kenna mismunandi stig. Það sem ég er að hugsa er að hættan við þær hugmyndir sem hæstv. menntamálaráðherrann setti fram hér í gær er sú að framhaldsskólastigið verði svolítið út undan vegna þess að við ætlum að koma inn með háskólastig og skóla fyrir afburðanemendur, sem ég er mjög hlynnt eins og komið hefur fram, en það hlýtur að kosta mikla peninga.

Ég velti því líka fyrir mér, virðulegur forseti, og skil það þegar hv. þingmaðurinn segir að sveitarfélögin beri ábyrgð á rekstri tónlistarskólanna, en síðan koma þingmenn og segja: Það þarf að flytja þetta frumvarp vegna þess að Reykjavík túlkar þetta einhvern veginn öðruvísi en aðrir. Er það ekki viðurkenning á því að Reykjavíkurborg hafi töluvert til síns máls ef þetta er í annað eða þriðja skipti sem er verið að flytja hér tillögu um að brúa það bil sem upp á vantar? Ég læt það fara svolítið í taugarnar á mér að þingmenn komi hingað upp og segi að við þyrftum ekkert að vera að þessu ef Reykjavíkurborg túlkaði ekki hlutina öðruvísi en aðrir. Mér sýnist þetta vera viðurkenning á því að Reykjavíkurborg (Forseti hringir.) hefur aðra stöðu í þessum málum en (Forseti hringir.) önnur sveitarfélög.