144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[22:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið ákaflega fróðleg, ekki síst vegna þess að hún skilaði okkur hingað inn á fjörur þingsins hæstv. menntamálaráðherra sem fór yfir hugmyndir sínar. Ég kem að þeim síðar í ræðu minni.

Hér hafa menn aðeins drepið á eðli reddingarinnar sem er í þessu frumvarpi. Það birtist með ýmsum hætti. Í fyrsta lagi því að þetta er mál sem rekið hefur á reiða ráðuneytisins í tvö ár og er óleyst. Í öðru lagi er spegilmynd reddingarinnar sú staðreynd að sóttir eru peningar í alls óskylt ráðuneyti, í alls óskyldan málaflokk, teknar 30 milljónir úr varasjóði húsnæðismála. Það er sjóður sem átti að fara, ef ég man rétt, til þess að standa straum af eða létta undir með sveitarfélögum vegna kostnaðar þeirra af vannýttum félagslegum íbúðum. Maður veltir fyrir sér: Af hverju varasjóður félagslegra húsnæðismála? Hvers vegna í ósköpunum ekki eitthvað annað eins og til dæmis stofnverndarsjóður íslenska hestsins? Þar var þó fullt af peningum. Ég minnist þess þegar ég rannsakaði það mál fyrir 10 árum síðan að þá voru 50 milljónir í þeim sjóði ekki nýttar og misstum við þó, herra forseti, litförótta graddann úr landi til Þýskalands, sem aldrei skyldi verið hafa. Það er önnur saga.

Lausn ráðherrans virðist vera tvenns konar: Annars vegar að bjarga málum til bráðabirgða með því að reiða sig á hjálpsemi og samstöðu þingmanna allra flokka til þess að bjarga stöðunni gagnvart tónlistarskólum, en hún er í slíku öngstræti að skólarnir vita ekki þegar dregur að mánaðamótum hvort þeir hafi peninga til þess að greiða laun kennara. Hún birtist líka í síhækkandi skólagjöldum nemenda, óvissu um valkosti við nám og færri valkostum að sjálfsögðu. Svona er staðan. Þetta ætlaði hæstv. ráðherra að leysa til bráðabirgða upp á náð hv. allsherjar- og menntamálanefndar með því frumvarpi sem við styðjum öll og ég mun greiða atkvæði með. Hins vegar ætlaði hæstv. ráðherra að koma hér með frambúðarlausn. Hann hefur núna tvö ár í röð lagt fram þingmálaskrá þar sem fram kemur að heildarendurskoðun á málefnum tónlistarmenntunar í landinu verði meðal mála hans. Það mál hefur ekki komið fram enn þá.

En hæstv. ráðherra var nánast dreginn hingað á axlaböndunum af hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, formanni þingflokks sjálfstæðismanna, í umræðunni í gær þegar þingmenn kröfðust þess að hann kæmi og greindi frá hugmyndum sem verið hafa á hljóðbergi hér og hvar og hæstv. ráðherra hefur reifað alls staðar annars staðar en hér. Honum til hróss ber þó að segja að hann lagði fram hugmyndir sínar nokkuð ítarlega. Ég hef skoðað þær eins og hægt er á grundvelli ræðu hæstv. ráðherra frá í gær. Ég komst að þeirri niðurstöðu að hugmyndin er mjög góð. Hún felur í sér fjórða stigið í tónlistarmenntun. Í reynd felur hún í sér að mínu mati eins konar háskólanám í tónlistarmenntun hér á landi. Þá hugmynd styð ég. Hún felur það í sér að þar er verið að þjappa saman afburðanemendum hvaðanæva að af landinu og bjóða þeim upp á hágæðamenntun áður en þeir halda til lengra náms í útlöndum vegna þess að þeir hafa kosið í krafti sérstakra hæfileika að gera tónlist að framtíðarstarfi.

Jafnframt kom fram í máli hæstv. ráðherra að sérstök tenging er við mennta- og framhaldsskóla landsins. Það er fín hugmynd. Hún mun örugglega skjóta styrkum stoðum undir tónlistarlífið á Íslandi. Hún mun leiða til þess, ef henni verður einhvern tímann hrint í framkvæmd, að tónlistarlíf á Íslandi glæðist og við munum að öllum líkindum eignast fleiri Víkinga, fleiri afburða Íslendinga á sviði tónlistar.

Herra forseti. Það er hængur á þessu máli. Hann er sá að það leysir með engu móti þann fjárhagslega vanda sem tónlistarmenntun í landinu býr við í dag og við höfum verið að ræða hér í dag og í gær. Þvert á móti er líklegt að akademía af þessu tagi muni kosta miklar fjárhæðir. Ég slæ á að það geti ekki verið undir nokkrum hundruðum milljóna.

Með öðrum orðum, hin góða hugmynd hæstv. ráðherra mun leiða til þess að kallað verður eftir meira fé. Ekkert af þessu mun bjarga fjárhagsvanda tónlistarskóla á landsbyggðinni og alls ekki hér í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu. Hugmynd hæstv. ráðherra er fín, en hún kemur þessu máli ekki við, því miður, hún leysir engan vanda.