144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[15:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir þinginu liggja frá því í janúar umræðubeiðnir um sérstakar umræður og við höfum óskað eftir því að þær verði teknar hér á dagskrá. Það er náttúrlega með öllu ólíðandi að í hálft ár taki ráðherrar ekki við slíkum beiðnum og eigi samtal við okkur þingmenn. Það er okkar hlutverk að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og það gerum við í gegnum sérstakar umræður. Á meðan engin starfsáætlun er hér eru engar sérstakar umræður, það eru engar munnlegar fyrirspurnir og okkur er beinlínis haldið frá því að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Við erum að leggja til að þær umræður verði teknar hér á dagskrá, tekin verði upp umræðan um stöðuna í heilbrigðiskerfinu vegna uppsagna, tekin verði umræðan um verðtrygginguna, tekin verði umræðan um jöfnuð í samfélaginu og áhrif skattbreytinga á það. Hvers vegna eru menn ekki tilbúnir í þær umræður? Er það kannski vegna þess að menn munu ekki afnema verðtrygginguna eins og (Forseti hringir.) formaður fjárlaganefndar sagði í viðtali nýlega að væri mjög erfitt að gera? Er það vegna þess að menn eru ekki búnir að gera neitt plan um það með hvaða hætti eigi að vinna á biðlistum í heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) og hvernig eigi að mæta uppsögnum þar? Það er líklega svarið.