144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að gleðjast yfir samningi við hjúkrunarfræðinga og vonandi næst sátt um þann samning. Það tókst að lenda kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum af skynsemi með samstöðu aðila og myndarlegri aðkomu ríkisstjórnarinnar, samningum sem ganga lengra en áður til aukins jöfnuðar. Við þekkjum þá atburðarás sem fer í gang þegar auknum kostnaði kjarasamninga er velt út í verðlagið og nú þegar sjást merki um verðhækkanir vegna kjarasamninga. Þrátt fyrir þá viðleitni Seðlabankans að hækka nú þegar vexti til að halda aftur af verðbólgu er ég smeykur um að vaxtahækkanir geti haft þveröfug áhrif. Vextir hækka kostnað fyrirtækja, sér í lagi minni og millistórra fyrirtækja, og minnka getu þeirra til að mæta hærri launakostnaði ellegar velta því út í verðlagið.

Heimili með stærstan hluta skulda í verðtryggðu fasteignaláni finnur minna fyrir vaxtahækkuninni sem er bætt við höfuðstólinn og dreifist á mánaðarlega greiðslubyrði en safnast hins vegar upp sem skuldabaggi til framtíðar. Vaxtahækkanir geta því bitið þar sem síst skyldi, draga úr sparnaði og fjárfestingum og veikja kaupmátt. Á hinn bóginn liggja verðbólgumarkmið peningastefnunnar fyrir og með vaxtatækið nánast eitt að vopni sinnir Seðlabankinn í raun á skýran hátt sínum hluta ábyrgðarinnar og bregst við stöðu og væntingum. Því þurfum við að líta okkur nær. Verðstöðugleiki er æskilegur og aukinn kaupmáttur er nauðsynlegur afrakstur samninga. Það er hægt að ná því með sameiginlegu átaki allra, auknum aga og sparnaði í öllum rekstri, allra efnahagseininga ríkis, fyrirtækja og heimila. Ábatasamasti sparnaðurinn verður áfram að greiða niður skuldir. Ríkisstjórnin hefur sýnt fordæmi með aðgerðum sínum og þarf að halda áfram á þeirri braut, sýna aðhald í ríkisútgjöldum, greiða niður skuldir og hvetja til aukins sparnaðar. Þannig verður þrýstingur á (Forseti hringir.) vaxtahækkanir minni og æskilegt jafnvægi líklegra.