144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Löngu vori verkfalla er senn að ljúka. Það er mikil gleði í samfélaginu yfir því að samið hafi verið við hjúkrunarfræðinga í gærkvöldi, eina mikilvægustu stétt heilbrigðiskerfisins og límið í henni. Við höfum upplifað læknadeilu og kjaradeilur annarra heilbrigðisstétta í vetur og það hefur skapað mikið óöryggi í samfélaginu, óöryggi sem við viljum ekki lifa upp aftur. Við viljum aldrei lifa upp svona vetur aftur. Við þurfum að finna leiðir til að kjaradeilur þessara hópa ógni ekki öryggi sjúklinga og fólksins í landinu enn á ný. Það er hvorki vilji þess né okkar og það er auðvitað sameiginlegt verkefni að finna leiðir til þess.

Þá hafa stéttir iðnaðarmanna, sem hafa boðað verkföll að undanförnu, samið þannig að segja má að nú séu nánast allir aðilar á vinnumarkaði að ljúka kjarasamningum. Það er mikið fagnaðarefni. Ég tek undir með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni þegar hann segir að nú þurfi verslun, þjónusta, bankar og aðrir að sýna hófsemd og sjá hvort þeir geti ekki tekið á sig þær launahækkanir sem fyrirtækin verða fyrir. Mörg hafa þegar sýnt fram á það með góðum hagnaði að þau eiga að geta staðið undir þeim kjarasamningum sem gerðir eru á almennum markaði. Það hefur komið fram að samningarnir eiga ekki að ógna stöðugleika og það er mikilvægt að nú komi síðustu hóparnir, BHM, inn í dæmið, klári sína samninga og sýni að þeir séu líka í kjarabaráttu en ekki í pólitík.