144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur um túlkaþjónustu. Við samþykktum árið 2011 frumvarp til laga um að táknmál yrði viðurkennt tungumál og þess vegna er óásættanlegt fyrir þá sem nýta það tungumál að af þeim sé tekinn sá réttur að geta verið virkir þegnar í samfélaginu.

Það er annað sem mig langaði að minnast á. Í fréttum í útvarpinu í dag sem og í blöðum er greint frá því að forstjóri Barnaverndarstofu hefur verið sýknaður af átta ummælum sem hann lét falla um rekstur Götusmiðjunnar á árum áður. Fréttaflutningur af þessu er með þeim hætti að það hlýtur að koma til kasta velferðarráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins að fylgjast með því hvernig slíkar stofnanir sem þiggja fé af fjárlögum vinna vinnuna sína ef í annað skipti á skömmum tíma er svo illa staðið að málum sem raun ber vitni. Ef skjólstæðingum þeirra stofnana sem hlut eiga að máli og eru þarna til þess að leita sér hjálpar er misboðið með orðum og/eða gjörðum eins og gerðist í svokölluðu Byrgismáli og virðist vera hér í máli Götusmiðjunnar er það skylda stjórnvalda sem veita fé til slíkra stofnana að sjá til þess að þetta virka eftirlit komi ekki eingöngu þegar skjólstæðingarnir leita annað vegna þess að þeim hefur með einum eða öðrum hætti verið misboðið. Þetta er ljót frétt, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) það er ljótt sem liggur að baki sýknu forstjóra Barnaverndarstofu, það er ljótt mál og það er okkar skylda að koma í veg fyrir að svona eigi sér stað.