144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er mjög óróleg yfir stöðunni í heilbrigðiskerfinu og ég er mjög óróleg yfir værukærð stjórnvalda gagnvart því máli. Um 200 heilbrigðisstarfsmenn hafa sagt upp störfum. Það hefur ekki komið fram að menn séu farnir að draga þær uppsagnir til baka. Það var samið í gær en ég bendi samt á að félagsmenn sjálfir eiga enn eftir að samþykkja samninginn og formaður Félags hjúkrunarfræðinga sagði í fjölmiðlum í dag að hann væri hóflega bjartsýnn á að það gerðist þar sem þau hafi ekki náð markmiðum sínum en hann taldi þetta vænlegri stöðu.

Ég held að menn ættu ekki að fagna fyrr en atkvæðagreiðslan er komin í hús. Og mér finnst óþægilegt hversu værukærir menn eru hér gagnvart þessari stöðu, þeim biðlistum sem hafa hrannast upp í heilbrigðiskerfinu. Forstjóri Landspítalans er búinn að segja okkur að það muni þurfa töluverða fjármuni til að vinna þá upp og þá má líka spyrja: Hvernig ætla menn að bregðast við því ef uppsagnirnar standa? Mér finnst vanta alla áætlun. Við höfum ekki séð neitt plan um það með hvaða hætti á að bregðast við þessu og mér finnst menn vera heldur værukærir.

Ég hef áhyggjur af þessu og við leggjum hér ítrekað fram tillögu um dagskrárbreytingu vegna þess að við teljum mörg í þessum sal, ekki síst í stjórnarandstöðunni, mikilvægt að taka þessi mál hér upp. Ég kalla þess vegna eftir því og ítreka að forseti fari að setja starfsáætlun þannig að við getum farið í sérstakar umræður.

Virðulegi forseti. Ég tek að lokum undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur og þakka henni fyrir að taka upp mál táknmálstúlkunar vegna þess að það er ólíðandi að við séum að skerða mannréttindi stórra hópa Íslendinga, vitandi það að (Forseti hringir.) skömmtun fjármuna er ónæg.