144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með forseta. Ég vil sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar taka eindregið undir með þingflokksformönnum Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um nauðsyn þess að hér sameinist allir þingflokkar á Alþingi um að tryggja heyrnarlausum rétt í lögum til túlkaþjónustu við athafnir daglegs lífs. Við sameinuðumst um mikilvæga löggjöf í þinginu árið 2011 og þurfum að fylgja henni eftir með skýrum og ótvíræðum mannréttindum til handa heyrnarlausum að fá túlkun í þeim verkefnum sem við öll þurfum að sinna. Við sem höfum fengið fulla heyrn í vöggugjöf, okkur ber skylda til þess að tryggja það að þeim sem ekki var það gefið séu tryggð þau mannréttindi að geta stundað athafnir daglegs lífs með þeirri túlkaþjónustu sem þeir eðlilega þurfa á að halda.

Virðulegur forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna stærsta máls þessa kjörtímabils sem er til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd, það lýtur að gjaldeyrishöftunum, stöðugleikaskatti og uppgjöri hinna föllnu banka sem stjórnarmeirihluti undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur tók hér undir gjaldeyrishöft á síðasta kjörtímabili. Hér er verið að taka mjög afdrifaríkar ákvarðanir og við umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd hefur ýmislegt komið fram sem miklu máli skiptir að nefndin og þingið gefi sér tíma til að fara yfir, meðal annars þau stöðugleikaskilyrði sem verið er að grundvalla þessar tillögur á og sömuleiðis hver sé hin endanlega útkoma úr þeim skilyrðum sem sett verða og hvaða aðkomu þingið eigi að hafa að því. Ég vil leggja á það áherslu að hér mega menn ekki hrapa að því með einhverjum kvöld- og helgarfundum að ljúka (Forseti hringir.) jafn veigamiklu máli. Hér þarf þingið (Forseti hringir.) að taka sér þann tíma sem þarf til að gaumgæfa (Forseti hringir.) efnisatriði þessa mikilvæga máls áður en það verður afgreitt, því það getur haft gríðarlega afdrifaríkar afleiðingar um langa framtíð.