144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek afsökunarbeiðni hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar vel til greina og þakka hana, en hann getur átt þann orðastað sem hann hefur viljað undir ræðum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur ef hún kýs að taka til máls í þessu máli.

Það sem ég vil segja og segi það þá kannski enn og aftur, að það kemur bara berlega í ljós þegar menn þurfa að fara að vinna úr þessum lögum og hrinda þeim í framkvæmd að undirbúningurinn að þeim var allsendis ófullnægjandi. Það hefur ekkert með það að segja hvort maður er á móti framkvæmdum á Norðurlandi eða uppbyggingu á þeirri iðnaðarlóð nema síður sé.

Ég vísa líka til þess að við sitjum uppi með það og það blasir við að þingheimur nær ekki að afgreiða með fullnægjandi hætti þingmál sem almennt er kallaður ramminn, og getur töf á því að koma fleiri vatnsaflsvirkjunum í nýtingarflokk orðið mjög alvarleg fyrir okkur. Það er kannski ómaklegt að vísa í þá umræðu í seinna andsvari við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, en ég vil þá líka segja, hvort sem ég hef nefnt þessa löggjöf um Bakka einhvern tíma opinn stóriðjuvíxil síðustu ríkisstjórnar, vinstri stjórnarinnar, að við megum ekki hætta að búa þannig um hnútana að hægt verði að ráðast í stóriðju. Við getum ekki leyft okkur þann munað að vera einn daginn á móti stóriðju en annan daginn með stóriðju eftir því hvar hún er staðsett eða hverjir að henni standa. Og ég er mjög áhyggjufullur yfir því ef okkur tekst ekki að afgreiða þingmálið, rammann, með fullnægjandi hætti að við séum að missa af stórkostlegum tækifærum, tækifærum sem kannski blasa við okkur að vera loksins komin í næstu kynslóð stóriðjunnar sem er umhverfisvænni en stóriðjan sem áður hefur verið byggð, sem er einmitt að fullvinna afurðir stóriðjunnar, gera þær verðmeiri og skapa hér góð og vellaunuð störf.