144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir sköruglega en stutta, gagnyrta framsögu fyrir nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar. Ég vil segja það algjörlega skýrt að ég styð þá tillögu sem hér kemur fram í þessu frumvarpi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé óþægilegt og því miður erfitt að segja annað, eins og þetta mál er komið fram, en að æskilegt hefði verið að menn hefðu getað skýrt betur þann kostnað sem þessu fylgir. Það á sér vafalaust skýringar sem ég þekki ekki, segi það bara hreint út.

Hins vegar vil ég segja það skýrt að ég kann því mjög illa, frú forseti, þegar við erum að ræða mál af þessu tagi og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir heldur þessa endemisræðu yfir einum þingmanni fjarstöddum, löðrungar hann í bak og fyrir, og boðar síðan að hún ætli að halda sérstaka ræðu beinlínis til þess að hjóla í fjarstaddan þingmann, Steingrím J. Sigfússon. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er sannarlega maður til þess að taka á móti pústrum, og kárínum frá hverjum sem er, bæði þeim sem hér stendur ef svo ber undir, en örugglega líka af hv. formanni fjárlaganefndar. Og ég verð að segja, frú forseti, að það var miklu áheyrilegra að hlusta á hv. þm. Harald Benediktsson, hann kom vissulega með málefnalegar, réttmætar aðfinnslur um forsögu þessa máls, en kemur jafnframt með lærdóm sem hann dregur af því og leggur fram hugmyndir um með hvaða hætti menn eigi í framtíðinni að fara með svona mál. Ég vil segja það að ég er honum algjörlega sammála um það. Ég tel að það væri miklu haganlegra að öllu leyti að framkvæmd af þessu tagi, sem er ekkert annað en samgönguframkvæmd, verði undir samgönguráðuneytinu.

Hitt er svo allt annað að hlusta á hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Hún kemur hingað beint ofan í það að Framsóknarflokkurinn hefur gert þingheimi þann greiða að senda hér upp tvo þingmenn til þess að halda skammarræður yfir þingmönnum yfir því hvernig þeir haga sér í þessum sölum. Það er talað um níð, baknag, einelti, það eru orðin sem notuð voru af tveimur hv. þingmönnum Framsóknarflokksins, Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur og Elsu Láru Arnardóttur, síðast í gær. Svo kemur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og hagar sér með nákvæmlega þeim hætti.

Frú forseti. Það er mjög erfitt að sjá samkvæmni í þessu, en bara til þess að ég hafi sagt það hér þá tel ég að þetta sé angi af nákvæmlega sama meiði og þegar hæstv. forsætisráðherra beitir sér gagnvart fjölmiðlum, talar um að hann sitji undir stöðugum loftárásum fjölmiðla. Hann er auðvitað að berja þá til þöggunar. Þegar menn koma hér upp og leyfa sér að halda því fram, þótt stundum hvíni í tálknum, að þegar það gerist sé það einhvers konar einelti gagnvart hæstv. forsætisráðherra, er það ekkert annað en tilburðir til þess að þagga niður í þeim sem leyfa sér að gagnrýna hæstv. forsætisráðherra. Þetta vil ég segja um það.

Um endemisræðu hv. þingmanns, stutta sem betur fer, Vigdísar Hauksdóttur hérna áðan, verð ég að segja að núna þegar Grikkland er að berjast fyrir sínu efnahagslega lífi, þegar gríska þjóðin býr við meiri þrengingar en síðan herforingjastjórnin fór frá völdum á sjöunda áratugnum, þá nær það ekki nokkurri átt að leyfa sér að koma hingað upp og hæða þjóðina og smá, bara til þess að hún geti seilst um hurð til lokunnar og greitt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni löðrung. Þetta er svo fullkomlega úr takti við ræður hv. þingmanna Framsóknarflokksins sem við höfum setið hér undir með bros á vör, stillt okkur um hæðnishlátrana því að það má ekki hlæja að hv. þingmönnum Framsóknarflokksins, þá fara þeir á tauginni, þannig er nú ástandið á þeim bæ, en þetta er algjörlega út úr kú. En sannarlega skal ég sitja undir ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og hlusta á hana áfram og þess vegna í allan dag, skammast út í Grikki og Steingrím J. Sigfússon.

Um það verkefni sem við ræðum hér hef ég það að segja að það var undirbúið í tíð síðustu ríkisstjórnar, það var gert mögulegt af síðustu ríkisstjórn, eins og nota bene öll stóriðjuverkefni og allar stærri framkvæmdir sem núna, þegar tvö ár eru liðin af kjörtímabilinu, eru á borðum núverandi ríkisstjórnar. Það er ekkert verkefni, bara svo að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir heyri það, sem er á teikniborðinu sem núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur af eigin krafti og þrótti lagt fram. Verkefnið sem er hér uppi á Grundartanga, Silicor, sem ýmsir hv. þingmenn tala um og gætti þess aðeins í ræðu hv. þm. Haralds Benediktssonar að verið væri að eyðileggja með því að samþykkja ekki einhverjar sérstakar tillögur hv. þm. Jóns Gunnarssonar — ja, við skulum aðeins hugsa og dvelja við það líka: Hvað á núverandi hæstv. ríkisstjórn í því máli? Ekki neitt, bara akkúrat ekki neitt. Því er lýst yfir í bak og fyrir, fram og til baka, alla daga þegar eftir er spurt: Hvers vegna kom Silicor til Íslands? Já, hvers vegna kom Silicor til Íslands, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir? Vegna þess að hér var gerður fríverslunarsamningur við Kína. Það er eina ástæðan, engin önnur.

Svo ég víki aftur að Húsavík, þar er verið að byggja upp stóriðju sem hentar Húsvíkingum miklu betur en það verkefni sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og hennar nótar voru hér árum saman að reyna að draga á norðausturhornið þar sem allir vissu að ekki var hægt að byggja vegna þess að það þurfti 400 megavött af orku, sem ekki eru til nema menn ætli að ráðast í Skjálfandafljót og báðar virkjanirnar þar. Það var það sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir vildi og ráðast líka í Gjástykki. Bara svo að það liggi fyrir þá var það síðasta ríkisstjórn sem bæði útfærði, veitti heimildir og rannsóknarleyfi fyrir Þeistareykjavirkjun, iðnaðarráðherrann sem sat í þeim stóli frá 2007, og lagði til stækkun á því verkefni í kjölfar rannsókna sem bentu til þess, alveg eins og sá iðnaðarráðherra var viss um, að það væri miklu meiri orka þarna en þá lá fyrir samkvæmt opinberum tölum. Þetta hefur margvíslega ávinninga í för með sér fyrir norðausturhornið. Það er ekki bara Húsavík sem nýtur góðs af þessu og á það sannarlega skilið. Næsti bær við, Þingeyjarsveit, rís líka upp vegna þessa. Þar er mikil vinna í því ágæta byggðarlagi við hvers konar framkvæmdir sem tengjast virkjun Þeistareykja en ekki bara það, mjög sniðuglega gerður samningur milli Þingeyjarsveitar og Landsvirkjunar leiðir eiginlega fram eins konar auðlindagjald sem sveitin fær og nemur tugum milljóna á hverju ári þegar þetta verður komið í fullan gang. Þarna eru því undir tvö byggðarlög sem eiga virkilega til mikils að vinna með þessari framkvæmd. Og þessi ríkisstjórn, frú forseti, svo ég drepi aðeins á það út af þeirri ræðu sem hér var haldin áðan af hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, á ekkert í því, ef ég má, með leyfi, halda því fram og hv. þingmaður getur síðan farið með öðrum hætti yfir það.

Svona er hægt að fara yfir þau stóriðju- og stórframkvæmdaverkefni sem eru fram undan núna á Íslandi í dag. Öll má rekja til síðustu ríkisstjórnar. Það er Silicor, sem ég hef hér farið yfir, sem núverandi hæstv. iðnaðarráðherra á ekkert í, en það er sjálfsagt að hún njóti ylsins af þeirri framkvæmd. Thorsil, sem lögð voru drög að í iðnaðarráðuneytinu allt frá 2008 og annað verkefni þar líka, miklu smærri stóriðjuverkefni en álverin sem menn hafa verið að láta sig dreyma um hér árum saman, og þar að auki eykur þetta fjölbreytni í iðnaðarframleiðslu okkar. Með því að fara þá leið sem var mörkuð í tíð síðustu ríkisstjórnar er verið að fara að ráðleggingum OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, um að leggja ekki fleiri egg í álkörfuna, leiðbeiningar sem fyrst tók að glitta í í skýrslum OECD í lok árs 2008 og hafa verið endurteknar allar götur síðar. Og vitaskuld skiptir þetta máli.

Hv. þingmenn stjórnarliðsins, meðal annars hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, hafa stundum rætt um ýmiss konar önnur verkefni eins og t.d. gagnaver. Ja, það er nú svo, nokkur gagnaver eru komin upp og stundum er það fjarstaddur hæstv. iðnaðarráðherra, sem ég ætlaði af þeim sökum ekkert að segja um, sem ber sér á brjóst yfir því, en það er rétt að rifja það upp hver það var sem hafði frumkvæði að því að gerð var skoðun á möguleika gagnavera, lét gera fyrstu skýrsluna um það og kallaði til fyrsta alþjóðalega fundarins um það á Íslandi. Það var ekki hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir, það var sá sem hér stendur sem gerði það, bara svo að það liggi fyrir. Og það er líka sjálfsagt að rifja það upp hvernig partur af stjórnarandstöðu síðasta kjörtímabils lagðist þvert gegn ýmsum breytingum sem þáverandi ríkisstjórn, sem ég er stoltur af að hafa verið í, varð að beita sér fyrir til þess að Verne gagnaverið kæmist á legg. Og það er að spretta eins og sveppur í dag, stöðugt ný verkefni sem eru að koma til þess, og fleiri og fleiri gagnaver sem munu koma hingað vegna þess.

Síðasta ríkisstjórn skildi líka eftir viðræður við erlenda fjárfesta um að koma hingað nýjum sæstreng, fjarskiptastreng. Hvar er það mál statt í dag? Kannski formaður fjárlaganefndar geti upplýst okkur um það hér á eftir milli þess sem hún dundar sér við það að skamma fjarstaddan hv. þm. Steingrím J. Sigfússon eða skamma Grikki í hörmungum þeirra núna. Kannski hún geti upplýst okkur um það hvað varð um það verkefni. Og með leyfi að spyrja, og læt ég þar með málið falla niður: Hvað varð um hæstv. iðnaðarráðherra? Það hefur ekki heyrst til hennar frá því að þingið henti hér burt hinum vitlausa náttúrupassa.

Frú forseti. Staðreyndin er sú að frá því að bankahrunið brast á með öllum þeim skelfilegu afleiðingum sem það leiddi yfir Ísland þá hafa þrjár ríkisstjórnir unnið allar af sannfæringu og þrótti fyrir því að byggja Ísland upp og það er bara að takast nokkuð vel. Við skulum ekki gleyma því að grunnurinn að því var lagður af ríkisstjórn Geirs H. Haardes, sem brást hárrétt við, eins og rannsóknir allar sýna, í þeirri hraðskák sem þá var tefld á nokkrum dögum og sumir hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa notað síðustu missirin til þess að moka skít yfir. Þá rötuðu menn að yfirveguðu ráði á nákvæmlega þá leið sem þurfti að fara til þess að byrja að feta slóðina út úr kreppunni og það voru neyðarlögin. Þær ríkisstjórnin tvær sem síðan tóku við, minnihlutastjórn og síðar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, fetuðu sig áfram á sömu slóð. Ef menn efast eitthvað um það ættu þeir að lesa síðustu greiningu Arion banka á þingmáli sem hér verður rætt síðar í dag, ríkisreikningi fyrir árið 2013, og skoða hvað Arion og greiningardeildin hefur að segja um það. Þar er einmitt farið rækilega í það hvernig samanlagðar ríkisstjórnir hafa síðustu fimm árin unnið mjög þétt að því að ná Íslandi upp. En auðvitað vitum við að það var engum að þakka og alls ekki Sjálfstæðisflokknum, engum flokki að þakka nema auðvitað Framsóknarflokknum sem hefur bjargað öllu hér á Íslandi og býr við stórkostlegan leiðtoga og sem mestu skiptir þó býr við stórkostlegan formann fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, sem mun hér á eftir halda snjalla ræðu, áreiðanlega um sitt eigið ágæti og líka Framsóknarflokksins. En þetta er mikilvægt að fyrir liggi að auðvitað vinna allar ríkisstjórnir vel að því að byggja upp sitt eigið land, ég tala nú ekki um eftir þær skelfilegu hörmungar sem yfir okkur riðu, og þær eiga allar hrós skilið, líka þessi ríkisstjórn, sem vinnur algjörlega af einurð og sterkum vilja til þess að nýta þau tækifæri sem fyrir eru sem best.

Ég er ekki að kalla eftir frekari stóriðjuframkvæmdum. Ég held, svo að ég beini orðum mínum til hv. þm. Haralds Benediktssonar, að undir lok næsta árs verðum við öll önnum kafin við það að berjast við það að halda lokinu ofan á sjóðandi potti sem hitnar allt of hratt. Því miður held ég að við eigum eftir að sjá alls konar óáran sem af því hlýst, t.d. gagnvart þeim sem eru að kaupa sér húsnæði, því að ein afleiðingin er sú sem við erum þegar farin að sjá framan í, vaxtahækkanir og boðaðar vaxtahækkanir áfram.

Hv. þm. Haraldur Benediktsson talaði hér óræðum rómi um að menn mættu ekki stöðva framkvæmdir því að þá mundi ákveðin verkefni stoppa. Bíddu, það eru nokkrir dagar síðan hv. þingmaður og hv. þm. Jón Gunnarsson héldu þessu fram og að það mundi stoppa Silicor. Hvað hefur gerst síðan? Það er búið að undirrita fjármögnunarsamning um Silicor, það er búið að undirrita byggingarsamning við Silicor. Var það ekki verkefnið sem okkur var sagt úr þessum ræðustól að mundi vaxa fætur á og toga út úr landinu ef ekki yrði farið strax að því að samþykkja hinar og þessar tillögur þeirra um orkuvirkjanir? Reynslan hefur sýnt að það er rangt og hv. þingmaður þarf ekki að óttast að okkur verði orkuskylft í landinu. Ég held að þær reglur sem við búum við muni leiða til þess að við tökum heppilegar ákvarðanir á hárréttum tíma.