144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:51]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki að beina þessum ummælum til hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, ég veit að hún hefur alveg ágætisskilning á byggðamálum. En það er ótrúlega þreytandi, finnst mér, að ef farið er í einhverjar framkvæmdir utan suðvesturhornsins þá er talað um kjördæmapot. Ef maður er þingmaður kjördæmis úti á landi liggur maður alltaf undir þeim ámælum að maður sé einhvern veginn að ganga erinda kjördæmisins alveg óháð því hvort það sé skynsamlegt eða ekki. Og sjálfsagðar samgöngubætur, það er eins og það sé bara meiri háttar mál að fara í sjálfsagðar samgöngubætur úti á landi. Mér finnst þetta alveg ótrúlega þreytandi umræða og oft erfið.

Ég geri mér alveg grein fyrir að þetta mál er umdeilt vegna þess að gríðarlegar upphæðir fara í ívilnanir í rauninni fyrir eitt fyrirtæki, en hugmyndin er auðvitað að þarna komi fleiri fyrirtæki þegar það fyrsta er búið að setja upp sína starfsemi, og að þessi göng og hafnarframkvæmdir og annað muni nýtast á því iðnaðarsvæði. Ég vona svo sannarlega að þetta muni ganga vel.

Ég er ánægð að heyra að hv. þingmaður er í rauninni fylgjandi þessu máli og mun styðja málið, þrátt fyrir að hún geri kannski athugasemdir við vinnulagið að einhverju leyti. Ég vil því ítreka að þarna er verið að nýta orku í heimabyggð, og ég hef fullan skilning á því, á svæði þar sem allar forsendur eru fyrir frekari vexti. Ef við ætlum að reyna að snúa þróuninni einhvern veginn við að allir sogist ekki á suðvesturhornið, þá verðum við að grípa til einhverra aðgerða og það er erfitt að þurfa alltaf að tala um það undir einhvers konar kjördæmapotsmálflutningi.