144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég missti því miður af fyrri hluta ræðu hv. þingmanns en frétti af því að það hefði verið tekist á svolítið hér í andsvörum vegna þess að hv. þingmaður hefði notað tækifærið til að ráðast á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, út af því.

Ég tók eftir því að hv. þingmaður spurði: Af hverju var þetta vistað í atvinnuvegaráðuneytinu, ekki hjá innanríkisráðuneytinu og Vegagerðinni? Ég get að mörgu leyti tekið undir það og segi bara að á nefndarfundi fjallaði ég um að nauðsynlegt væri að atvinnuvegaráðuneytið gerði kláran samning við innanríkisráðuneytið, sem fæli svo Vegagerðinni umsjón og alla framkvæmd með verkinu, vegna þess að þetta er ekki fjármagnað af hefðbundnu samgönguáætlunarfé.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í er ívilnunarsamningurinn, sem var sérstakur að því leyti að hann var gerður mjög snemma. Þetta var yfirlýsing frá ríkisstjórn um að ef af þessu verkefni yrði á væri ríkið búið að gera sitt. Og það var auðvitað með fyrirvara um að framkvæmdir hæfust. En hv. þingmaður fór geyst og gagnrýndi þetta mjög og þá spyr ég hv. þingmann: Núverandi stjórnarflokkar tóku við í apríl 2013, þessi lög voru samþykkt á síðustu dögum þingsins fyrir kosningar 2013 en ekki 2012, eins og hv. þingmaður var að tala um, er það þá ekki hlutverk núverandi iðnaðarráðherra, hæstv. ráðherra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, að gera samninginn og halda áfram með verkið og semja við Vegagerðina og innanríkisráðuneytið um framkvæmd verksins? Það hefur ekki verið gert, þannig að gagnrýni hv. þingmanns, virðulegi forseti, snýr fyrst og fremst að núverandi iðnaðarráðherra og ég tek undir þá gagnrýni, vegna þess að núverandi hæstv. iðnaðarráðherra gerði ekkert í málinu (Forseti hringir.) fyrr en núna á síðustu stundu. Ég spyr hv. þingmann: Er þetta ekki rétt mat hjá mér? Er hún ekki sammála mér í því að ráðherrann sem tók við í apríl 2013 (Forseti hringir.) hefði átt að halda áfram með verkið og gera samning eftir atvikum við innanríkisráðuneytið sem svo fæli það Vegagerðinni?