144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir þetta góða andsvar, því eins og flestir vita þá fór þessi hv. þingmaður fyrir samgöngumálum hér í eina tíð.

Það kom fram hjá þingmanninum að vantað hefði fé eftir að búið var að rannsaka en, virðulegi forseti, það var byrjað á vitlausum enda. Fyrst var tekin ákvörðun um að fara í verkefnið og síðan var farið að rannsaka hvernig jarðlögin væru, skjálftavirkni og annað á þessu svæði, þannig að þar liggur hundurinn grafinn, það var byrjað á vitlausum enda. Og eins og pólitíkin er nú þá þarf nú stundum að taka ákvarðanir með lagasetningu til þess að sýna ákveðinn styrk á ákveðnum stöðum, sýna framkvæmdagleði, en þetta er það sem er að þessu verkefni. Það var byrjað á vitlausum enda. Þegar rannsóknunum var lokið og lögin búin að liggja nokkur ár þá kom í ljós að það vantaði 70% upp á verkefnið. (Gripið fram í.) Og það er það sem þessi ríkisstjórn er að vinda ofan af og þetta fór ég yfir í ræðu minni.

Það sem hv. þingmaður spurði mig að, hvað mér fyndist um þá stjórnsýslu að ákveðin vitneskja hafi legið í forsætisráðuneytinu, þá kemur það ekki málinu við vegna þess að hæstv. forsætisráðherra fer ekki með þennan málaflokk. Þetta minnisblað (Gripið fram í.) var sent af Vegagerðinni … Get ég fengið hljóð fyrir hv. þm. Kristjáni Möller?

Þetta minnisblað fór frá Vegagerðinni til innanríkisráðuneytisins sem fer auðvitað með samgöngumál, það vitum við, en Vegagerðin sjálf sagði það á fundi fjárlaganefndar að verkefnið lægi á einskismannslandi. Enginn ber ábyrgð á því af því að það er vistað í röngu ráðuneyti. (Forseti hringir.) Það er vistað í atvinnuvegaráðuneytinu frá tíð síðustu ríkisstjórnar og ég er að leggja það til að þessu verði breytt, virðulegi forseti. Þessu eiga fyrrverandi ráðherrar fyrri ríkisstjórnar óskaplega erfitt með að kyngja.