144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst hann fara ágætlega yfir marga þætti, ekki ósvipað og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gerði áðan.

Hérna erum við með dæmi um að undirbúningur var ónógur, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, og reikningurinn gríðarlega hár. Byrjað er að ákveða að fara í verkefnið, samþykkt er ákveðin upphæð, en ekkert skoðað hvað það hefur í för með sér. Það er ótrúlegt að lesa minnisblað sem við í hv. fjárlaganefnd fengum þegar við tókum þetta upp, ég býst við að menn hafi fengið sambærilegt minnisblað í hv. atvinnuveganefnd, þar sem farið er yfir málið og hverju var í rauninni ekki hugsað fyrir, og allir sammála um það sem að málinu koma, viðkomandi embættismenn, þar sem menn eru svolítið að benda hver á annan, að fyrir liggur af hálfu pólitíkusanna að vinnan var ekki unnin í samræmi við það sem við viljum sjá.

Þá er komið að því hvar við erum núna. Hv. þingmaður nefnir, og ég held að við séum sammála um það, að mikilvægt sé að þessi vinna sé farin af stað og að hún gangi vel, það er mikilvægt að atvinnuuppbyggingin verði þarna öflug og fleiri aðilar þurfi að koma inn. Ég hefði að vísu viljað sjá þessi göng líka vera fyrir almenning, þetta eru einar dýrustu vegaframkvæmdir sem við erum að fara í núna, og það er svolítið sérkennilegt að sjá að við getum ekki nýtt það fyrir almenning í landinu heldur bara fyrir þessa fjárfestingu.

Hv. þingmaður, ef ég skil hann rétt, ætlar ekki að styðja frumvarpið. Ég velti því fyrir mér: Hvernig sér hann þá fyrir sér framkvæmd málsins ef við ætlum að halda þessu áfram? Það breytir enginn því sem á undan er gengið, en ef hv. þingmaður er með einhverja hugmynd um hvað við getum gert betur núna þá held ég að gott væri að fá það fram í umræðunni.