144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er aðeins að leita eftir leiðsögn í þessu, vegna þess að hv. þingmaður segir að hann sé að gagnrýna bæði núverandi ríkisstjórn og fyrrverandi. Það er fyrrverandi ríkisstjórn sem gerir þetta mál, undirbúningurinn er þar og fyrir liggur að það eru mun meiri fjármunir sem munu fara frá skattgreiðendum, nema við bara hættum alveg við þetta, bæði hvað varðar þetta verkefni og Vaðlaheiðargöng. Stóriðjustefna Vinstri grænna og Samfylkingar er nokkuð sérkennileg, en ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann út í það, ég ætla að taka þá umræðu við aðra þingmenn.

Hvað getum við gert betur núna? Ég er hreinlega að spyrja hv. þingmann, því að það skiptir miklu máli. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni að mikilvægt er að kostnaðurinn aukist ekki enn frekar en áætlað er. Það liggur fyrir að hér vantaði mjög mikið af upplýsingum þegar ákvörðunin var tekin og við breytum því ekki. Menn eru að vísa í eitthvert bréf sem hafi farið í ráðuneytin núna á síðustu mánuðum. Það breytir engu um eðli málsins.

Við þurfum að taka ákvörðun um það ef við ætlum að halda áfram: Hvernig getum við gætt ýtrustu varúðar? Ef hv. þingmaður er með hugmyndir um hvernig við getum gætt meiri varúðar en við erum að gera, þá er mjög mikilvægt að það komi fram. Þetta mál er auðvitað fullkomið klúður. Það er fullkomið klúður af síðustu ríkisstjórn og þó svo að einhverjir hv. þingmenn í ýmsum flokkum — ég sé að þetta er mjög viðkvæmt hjá hv. þingmanni Bjartrar framtíðar einhverra hluta vegna, og þá er ég ekki að vísa í hv. ræðumann. Það hefur nú komið í ljós í hv. fjárlaganefnd að Björt framtíð er ekki — ja, svona ákveðið ljósrit af Samfylkingunni þegar til kastanna kemur. En við ræðum það seinna. En ég vildi biðja hv. þingmann, af því að það skiptir máli, að koma með það fram í umræðunni hvernig við (Forseti hringir.) getum gætt meiri varúðar en við gerum núna. Það er mjög mikilvægt að það komi fram.