144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fékk nú fyrst vitneskju um þetta fyrir um þremur vikum vegna þess að það vill enginn hýsa verkefnið. Það ber enginn ábyrgð á verkefninu. Það heyrir undir atvinnuvegaráðuneytið í dag, hvorki innanríkisráðuneytið né fjármálaráðuneytið hafa yfirsýn yfir það hvað er um að vera. Þess vegna er ég að gagnrýna þetta og leggja til, eins og þingmaðurinn veit, að farið verði með þetta verkefni eins og önnur jarðgöng, þannig að hæstv. fjármálaráðherra hafi yfirsýn yfir fjárútlát ríkissjóðs og hæstv. innanríkisráðherra hafi yfirsýn yfir þau verkefni sem eru í gangi og geti skipulagt í samráði við Vegagerðina þau verkefni sem liggja fyrir. Það kom bersýnilega í ljós hjá Vegagerðinni að þetta ábyrgðarleysi hefur tafið og skemmt verkefnið. Hér er ég að leggja til þessar lagabætur.

Hv. þingmaður fór yfir að ekki mætti með nokkru móti tala um kjördæmapot og slíkt og ég skil eiginlega ekki af hverju við erum að ræða það hér. Mig langar að spyrja þingmanninn, þar sem núna er orðið bjart yfir Bakka og þetta verkefni að fara af stað, í Norðausturkjördæmi eru fern jarðgöng: Styður þingmaðurinn þá ekki ásamt sínum flokki sömu uppbyggingu í Helguvík og á Reykjanesi þar sem bráðnauðsynlegt er fyrir það svæði að fá einhvers konar stóriðju til sín, (Gripið fram í: … klúðruðuð Helguvík.) jarðgangalaust kjördæmi? Erum við ekki bara komin á þann stað að fara að ræða rammann? Það þýðir ekkert að tala um uppbyggingu stóriðju án þess að ramminn sé ræddur í leiðinni, því að nú þegar stöndum við frammi fyrir orkuþurrð. Er það ekki svolítill tvískinnungur að fagna stóriðjuuppbyggingu fyrir norðan á meðan ekki er til orka til þess að (Forseti hringir.) fara í önnur kjördæmi sem hafa ekki einu sinni jarðgöng?