144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir erindið. Sú sem hér stendur býr í Kópavogi en kom engu að síður mikið að þessu máli sem iðnaðarráðherra á síðasta kjörtímabili og að undirbúningi þess máls sem síðar var lagt fram af núverandi hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni eftir að við höfðum haft skipti á ráðuneytum. Þannig að kjördæmapot er þetta ekki. Þessi framkvæmd er stórkostlega mikilvæg fyrir landið allt og þannig höfum við litið á það allan tímann.

Ég verð að setja það líka, virðulegi forseti, að ég er dálítið hissa á umræðunni hér, sérstaklega af hálfu hv. þingmanna Vigdísar Hauksdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson studdi þetta mál allt saman. (ÖS: Kannast ekki við það núna.) Hann studdi málið, sagði ekki eitt aukatekið orð í umræðum um það. Ég finn ekkert um það. Hann hefði betur haft uppi þessi varnaðarorð þá. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi forsætisráðherra, kom hingað upp sérstaklega og fagnaði þessu, sagði að það væri gott að menn væru að átta sig á því að það væri mikilvægt að pólitíkin kæmi myndarlega að atvinnuuppbyggingu. Ég verð þess vegna að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, þessi snúningur sem á sér stað hér og nú og andstaða þessara þingmanna við þetta mál, eða núningur gegn því, kemur mér á óvart.

Eins og hv. þingmaður kom inn á vissu menn að sérstaða þessa svæðis er algjör. Það eru engar raflínur þangað. Það er engin vegalagning þarna. Það eru engir innviðir. Til að reyna að selja fólki það í kjölfar efnahagshrunsins sem hér varð að koma hingað með risastóra fjárfestingu inn á svæði þar sem engir innviðir voru fyrir þurfti að koma með einhvers konar staðfestingu frá hinu opinbera um að þegar framkvæmdir (Forseti hringir.) færu þar af stað þá mundu innviðirnir fylgja. Það var tilgangur þessa verkefnis. Þess vegna er sérstaða þessa máls eins og (Forseti hringir.) hún er.