144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[18:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður getur reynt að halda ræður í Valhöll um það að hann og hans flokkur séu með atvinnuuppbyggingu en að við jafnaðarmenn séum á móti henni. Það er nú ekki þannig. Jafnaðarmannahreyfingin um heim allan hefur haft forustu um atvinnuuppbyggingu, iðnaðaruppbyggingu, virkjunarframkvæmdir um áratugaskeið. (Gripið fram í.) Einfaldast er að nefna að ég sat í stjórn Landsvirkjunar þegar við samþykktum árið 2000 að ráðast í Búðarhálsvirkjun og undir ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í átta ár hreyfðist þar ekki nokkur skapaður hlutur, skóflan stóð bara enn þá í gatinu eftir fyrstu skóflustunguna. Og það var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem loksins hafði dug og afl til þess að gera þá virkjun að veruleika. Þannig eru nú bara staðreyndirnar í málinu.

Hitt fannst mér athyglisvert hjá hv. þingmanni og vildi kannski fá að fræðast aðeins hjá honum um það. Mér heyrðist hann tala aðeins um jarðvarmavirkjanir eins og þær væru minna fyrirsjáanlegar en vatnsaflsvirkjanirnar, að við vissum minna um þær. Mér finnst það áhugavert sjónarmið, af því að stundum hefur mér þótt við ræða um jarðvarmavirkjanir dálítið mikið eins og þær væru bara frábærar og æðislegar. En við höfum náttúrlega býsna erfiða reynslu til dæmis af Kröflu á sínum tíma. Við sjáum jarðhitageyminn í Hellisheiðarvirkjun, ja, það gengur býsna hratt á hann. Ég velti fyrir mér hvort þingmaðurinn telji að við þurfum að fara betur yfir reynslu okkar í þessu og reyna að draga betur saman þá þekkingu sem við höfum aflað á því sviði til að nýta betur við skipulagningu virkjunarframkvæmda á næstu árum.