144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[18:28]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, hv. þingmaður sat í stjórn Landsvirkjunar um tíma og tók þátt í vinnunni þar og það gerir fyrrverandi hv. þingmaður, Álfheiður Ingadóttir, líka í dag ef ég man rétt. Ég er ekki viss um að það endilega sé sammerkt því að hún styðji þar allar framkvæmdir miðað við það sem ég hef áður heyrt frá henni.

Já, það er mikill munur á jarðvarma og vatnsafli. Vatnsaflið er algjörlega fyrirsjáanlegt og þess vegna er mjög mikilvægt að halda áfram á þeim vettvangi, en það er þar sem síðasta ríkisstjórn stoppaði hlutina. Það er auðvitað gríðarleg sögufölsun og ekkert annað þegar reynt er að halda því fram af þingflokksformanni Samfylkingarinnar að Samfylkingin og forverar hennar eigi einhver rosalega stór skref í þessu og eitthvert forustuhlutverk á Íslandi í þessari baráttu og í þeirri uppbyggingu. Þeir eiga sín skeið í stjórnmálasögunni þar sem þeir hafa verið þátttakendur í þessu og gerðu það ágætlega um árabil, en það er ekki staðan í dag. Mér er til efs að sá flokkur, Samfylkingin, og að hluta til Vinstri grænir, viti hvert þau vilji stefna. Eða var það ekki þessi sami flokkur sem gekk frá því að bjóða út leit og vinnslu á olíu á Drekasvæðinu en kemur síðan inn í þingið í vetur og ber það allt af sér og vill vinda ofan af þessu öllu með tilheyrandi tjóni fyrir samfélagið? Hvað vill sá flokkur í þessum málaflokki? Ég veit það ekki, virðulegur forseti, ég er ekki viss um að þau viti það sjálf.