144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[18:42]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir hans mikla áhuga á Bjartri framtíð. Ég held að hann hafi eytt fimm mínútum af ræðu sinni að ræða um flokkinn minn og ég hlýt að vera ánægð með það hvað hann hefur mikinn áhuga á honum.

Ég vil leiðrétta hv. þingmann. Hann verður að vita hvað hann segir hér í ræðustól en hann sagði: „Björt framtíð í fjárlaganefnd er eins og ljósrit af Samfylkingunni.“ Það er ástæðan fyrir því að ég fór hér upp því að hann var að vísa ekki til Bjartrar framtíðar í heild, þótt það hafi kannski verið það sem hann ætlaði að gera, heldur var hann að tala um þann þingmann sem hér stendur og það fannst mér ómaklegt.

Varðandi orðræðu flokksins og að hv. þingmaður sé eitthvað vonsvikinn með það að Björt framtíð hafi ekki staðið við það sem hún ætlaði sér þá get ég bara talað fyrir mig, en ég mundi aldrei uppnefna aðra flokka eða tala um aðra flokka í ræðustól af lítilsvirðingu. Mér finnst að við ættum að reyna að halda okkur við það. Ég skil heldur ekki af hverju hv. þingmaður fer að draga opinberu fjármálin inn í þessa umræðu. Við erum að ræða um Bakka og það kom skýrt fram í nefndaráliti minni hlutans hvers vegna við vorum á móti því að málið væri tekið út akkúrat á þeim tíma, undir lok þings, þar sem það yrði líklega rætt í miklum hamagangi. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál sem við viljum hafa breiða sátt um.

Hv. þingmaður hefur sterka skoðun á þessu máli, en er það ekki rétt skilið hjá mér að hann greiddi atkvæði með málinu á sínum tíma og var ekki með neina fyrirvara eða athugasemdir við það hvernig málið var unnið?