144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[18:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé nákvæmlega ástæðan fyrir því að við stjórnmálamenn erum einhver óvinsælasta stétt landsins vegna þess að umræðan er oft svo ómálefnaleg og ömurleg að manni fallast hendur. Ég er bara döpur yfir þessu. Jæja, en svona er þetta.

Hv. þingmaður viðurkennir að hann hafi greitt atkvæði með málinu vegna þess að hann hafi treyst ríkisstjórninni. Ég get alveg skilið að maður hafi ekki endilega algera yfirsýn yfir mál, það er oft þannig í þessum þingsal, sem maður er að greiða atkvæði um. Ég mundi nú ekki treysta ríkisstjórn sem ég ætti ekki aðild að en ég mundi kannski treysta samstarfsfólki mínu í viðkomandi nefnd þannig að mér finnst það merkilegt að heyra að hv. þingmaður hafi treyst fyrrverandi ríkisstjórn miðað við hvernig hann og aðrir hafa talað um þá ríkisstjórn hér í þingsal, það eru ekki fögur orð.

Staðan er einfaldlega sú núna að verkefnið er komið af stað og við erum í rauninni bundin af þessu. Er hv. þingmaður fylgjandi málinu eða mun hann greiða atkvæði gegn því? Telur hann að þetta mál hafi verið eitthvert sérstakt kjördæmapot? Það er orð sem er mjög oft notað, hv. þingmaður talar oft um Vaðlaheiðargöngin, ekki eins og þau séu mikilvæg samgöngubót heldur eins og þau séu afleiðing kjördæmapots. Ég verð að segja, komandi úr kjördæminu og hafandi ekki neitt um þessi mál að segja, að þetta eru gríðarlega mikilvæg mál fyrir kjördæmið og ekki mundi ég segja að Vaðlaheiðargöng væru kjördæmapot frekar en Harpan í Reykjavík.