144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er dálítið óvenjulegt að koma hérna þriðja daginn í röð, eiginlega á hnjánum, til að biðja þingheim um aðstoð við það að við þingmenn stjórnarandstöðunnar getum fengið að taka sérstakar umræður hér á dagskrá við hæstvirta ráðherra. Það er það eina sem við erum að biðja um. Dagskrártillaga okkar felst í því að menn taki núna fram fyrir umræðu um almenn dagskrármál sérstakar umræður. Ein hefur beðið frá því í janúar, önnur hefur beðið frá því í febrúar, munnlega skýrslubeiðnin hefur beðið frá því í maí og síðan er ein ný. Þetta er það eina sem við erum að biðja um og ég spyr mig hvers vegna menn greiði ítrekað atkvæði gegn þessu. Það tekur tvo klukkutíma að afgreiða þennan þátt mála, þetta er sá hluti sem við þingmenn — verkfæri sem okkur eru færð samkvæmt þingsköpum til að hafa eftirlit með starfsemi framkvæmdarvaldsins og því sem þar er að gerast en þingmenn leggjast hér fyrir það í heilan mánuð að við (Forseti hringir.) getum tekið sérstakar umræður á dagskrá. Og til hvers? Bara til að sýna vald sitt gagnvart minni hlutanum? Við erum að biðja ykkur um að styðja okkur í því að fá þessar (Forseti hringir.) sérstöku umræður á dagskrá. Það er það eina sem við biðjum um.