144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þar sem sumarþing heldur áfram eins og enginn sé morgundagurinn held ég að kominn sé tími til að taka tillit til óska stjórnarandstöðunnar um að fá á dagskrá sérstakar umræður sem hafa beðið allt frá því í janúar og febrúar, og svo nýja brýna umræðu um öryggi sjúklinga í kjölfar fjöldauppsagna sem er aldeilis brýnt að taka til umræðu hér. Þær umræður sem beðið var um, sérstakar umræður, eru um verðtryggingu og jöfnuð í samfélaginu. Þetta eru brýn málefni sem við þurfum að ræða. Út af hverju er ekki hlustað á stjórnarandstöðuna? Út af hverju treysta þeir ráðherrar sem þarna eiga í hlut sér ekki til að koma hingað og ræða þessi mál við alþingismenn? Hvað stendur í mönnum með það? Það hlýtur að vera réttmæt krafa hjá stjórnarandstöðunni að fá svona mál á dagskrá sem eru ekki stór hluti af þeim tíma sem Alþingi hefur til umræðna. (Forseti hringir.) Við bara gerum þá kröfu að þessum óskum okkar sé mætt.