144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég bind ekki miklar vonir við að stjórnarmeirihlutinn í þingsal greiði atkvæði með þessari dagskrártillögu, en ég geri þá kröfu til þingmanna að gera þá grein fyrir því út af hverju þeir treysta sér ekki í þessa umræðu. Út af hverju treystir hæstv. ráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sér ekki til að ræða afnám verðtryggingar? Út af hverju treystir hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson sér ekki til þess að fara í sérstaka umræðu um jöfnuð í samfélaginu í kjölfar fyrirhugaðra skattbreytinga? Út af hverju, hæstv. ráðherra? Út af hverju treystir Kristján Þór Júlíusson, hæstv. ráðherra, sér ekki til að koma núna og ræða alvarlega stöðu sem upp er komin í heilbrigðismálum í kjölfar fjöldauppsagna hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum? Út af hverju? Hvers konar framkoma er þetta gagnvart þingheimi? Við eigum að standa hérna í allt sumar og ræða óskalista (Forseti hringir.) stjórnarmeirihlutans en menn treysta sér ekki í heiðarlega umræðu um svona brýn mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)