144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tel að þingstörf þessa dagana ættu að miða að því að binda saman þetta þing og ljúka þingstörfunum. Við erum svo sem að reyna að eiga samtal um það hvernig það geti gerst en við erum komin, eins og hér hefur verið sagt, langt fram yfir starfsáætlun. Hvers vegna er það? Það er meðal annars vegna þess að menn hafa nýtt sér svo ríkulega tjáningarfrelsið hér á þessu vori. Hér sé ég að menn hrista hausinn. (Gripið fram í: Hvenær …?) — Mætti ég fá að tjá mig í eina mínútu án þess að vera truflaður? 2.500 ræður um fundarstjórn forseta frá áramótum, tæplega 50 klukkustundir í að ræða fundarstjórn forseta. Og menn kvarta undan því að fá ekki að ræða við ráðherra. Ég er mættur hér til þess að svara óundirbúnum fyrirspurnum og ég veit ekki til þess að það hafi verið einhver skortur á því að maður hafi sýnt vilja til að taka sérstakar umræður. En þegar menn hafa tekið þingið nánast í gíslingu með fullkomlega óeðlilegum hætti og sett hér allt í uppnám er óskaplega (Forseti hringir.) einkennilegt og ótrúverðugt að menn komi í kjölfarið og segi: Af hverju getum við ekki fengið að ræða við ráðherrana? [Kliður í þingsal.]