144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

loftslagsbreytingar.

[10:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er nú svo að hér á Alþingi ræðum við mörg mál en að mínu viti eyðum við ekki nægjanlegum tíma í að ræða stærsta viðfangsefni samtímans, sem eru loftslagsbreytingar. Um þær kemur hver svarta skýrslan á fætur annarri og við finnum nú þegar breytingar á veðurfari sem hafa veruleg áhrif á lífsafkomu okkar hér á landi sem og auðvitað íbúa alls staðar annars staðar í heiminum. Það hefur stundum viljað loða við þessa umræðu að hún sé svo stór og mikil að það sé næstum því erfitt að eiga hana, það er líka erfitt að eiga þessa umræðu innan kjörtímabila og þess vegna verður hún út undan í hefðbundinni umræðu stjórnmálanna.

Mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra um loftslagsmarkmið Íslands, ég veit raunar að hér liggja inni fyrirspurnir sem ekki hefur gefist ráðrúm til að svara á þinginu af einhverjum orsökum um þau mál, fyrir ráðstefnuna sem fyrirhuguð er í París sem þjóðir heims vonast til þess að skili árangri eftir ítrekaðar tilraunir til að reyna að ná nýjum sáttmála um það hvernig eigi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu öld. — Ég heyri það að hv. þingmenn hér í hliðarsal hafa ekki miklar áhyggjur af þessu stærsta viðfangsefni samtímans sem allir stjórnmálamenn ættu að kynna sér og vinna að lausnum á.

Nú liggur fyrir að Evrópusambandið er búið að setja fram sín loftslagsmarkmið, Noregur er löngu búinn að því og leggur fram markmið sem miðast við að draga úr losun um 40% miðað við árið 1990 fyrir árið 2030. Umhverfis- og samgöngunefnd og utanríkismálanefnd fengu kynningu á því að vinna væri hafin við loftslagsmarkmið Íslands fyrir allmörgum mánuðum en enn bólar ekkert á þeim. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvar eru markmiðin, hvenær koma þau og hver verða þau? Þetta verðum við þingmenn að fá að vita áður en við förum heim í sumarfrí.