144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

makrílfrumvarpið.

[10:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar fyrst aðeins að benda á að það færi vel ef hæstv. fjármálaráðherra mundi vera aðeins heiðarlegri varðandi stöðuna hér á þinginu. Það er þannig að skynsamlegra hefði verið að gera hlé á þingstörfum þar til stöðugleikaskatturinn væri tilbúinn. Hann kom ekki inn til þings fyrr en áttunda þessa mánaðar. Mér finnst því mjög mikilvægt að við séum bara heiðarleg með það. Það er ekki hægt að benda á stjórnarandstöðuna um að við séum svo ómöguleg og þess vegna séum við svona sein með starfsáætlunina. Starfsáætlunin er sein af því að þetta mál kom seint inn og mér finnst allt í lagi ef við ætlum að reyna að greiða fyrir því hérna núna. Ég viðurkenni það í málflutningnum þegar við vorum að ræða dagskrártillöguna að hún var líka pínulítið ósanngjörn. Ef við ætlum að ná einhverri lendingu — og við erum alveg að ná lendingu, það stendur ekki á hæstv. fjármálaráðherra og hans flokki, það hefur staðið á Framsóknarflokknum en mér sýnist það vera að komast í höfn — þá langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji ekki skynsamlegt í ljósi nýrra frétta er lúta að því að dómsmálið gegn ráðherra atvinnuvega vegna makrílsins verður ekki dómtekið fyrr en í september, að bíða bara með makrílfrumvarpið þar til í haust, ekki eru nema örfáar vikur þar til haustþingið kemur saman, til að við getum einhent okkur núna í að klára þetta stóra og mikla mál sem vegur margfalt þyngra þegar kemur að þjóðarhagsmunum sem lýtur að upphafsstefinu að því að afnema gjaldeyrishöftin.