144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

makrílfrumvarpið.

[10:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Maður hefur svo sem lærimeistarann í málþófi sem er hæstv. fjármálaráðherra, mikill lærimeistari okkar í (Gripið fram í.) stjórnarandstöðunni. Það er mikill misskilningur að fram hafi komið í mínu máli að ég væri að segja að við hefðum ekki beitt öllum brögðum til þess að stöðva rammann, ég sagði það ekki, ég benti aftur á móti ráðherranum á að hann kom mjög seint inn með málið sitt, það hefur enginn staðið í vegi fyrir því og það hefði verið skynsamlegra í ljósi þess hve umdeild mál komu inn á þingið og hve miklum brögðum átti að beita til að ná grundvallarbreytingu og eyðileggja rammann, að auðvitað hefði átt að leysa það mál bara í nefnd, og ráðherra átti að leysa það.

Mér finnst mjög áhugavert að heyra, ég veit ekki hvort það er ánægjulegt eða leitt, að ráðherrann vísar beinlínis umboði stjórnarinnar um þinglok til Framsóknarflokksins af því að það hefur verið þannig að í staðinn fyrir að hefðbundnir fundir formanna hafi átt sér stað hefur atvinnuvegaráðherra verið sendur á þinglokasamningafundi (Forseti hringir.) formannanna. Það er þá (Forseti hringir.) hinn nýi formaðurinn.