144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

staða sparisjóðanna.

[11:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það eru þrjár ástæður fyrir því að ég hefði mjög gjarnan viljað sjá sparisjóðakerfið eflast og styrkjast og sparisjóðina, sem hafa verið að ganga inn í viðskiptabanka að undanförnu, halda velli. Í fyrsta lagi vegna þess að ríkið hefur verið og er stofnfjáreigandi í þessum bönkum og hefur beina fjárhagslega hagsmuni af því að sparisjóðunum gangi vel og að þær einingar styrkist og eflist. Í öðru lagi er ástæðan, sem hv. þingmaður nefnir og er af samkeppnislegum meiði, sú að þetta kerfi hefur verið ágætismótvægi við stóru viðskiptabankana. Í þriðja lagi er svo greinilegt þegar maður skoðar útibúadreifinguna að sparisjóðirnir hafa verið mikilvægar einingar á landsbyggðinni í að veita nærþjónustu og þar hafa skapast störf og umsvif sem hafa skipt miklu máli. Þetta þrennt saumast síðan saman, þessi nálægð við viðskiptin og mótvægi á móti getu stóru bankanna sem skiptir miklu máli.

Hins vegar fer Bankasýslan með eignarhaldið og Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með þessari starfsemi. Því miður hafa þessar einingar ekki náð sér á strik. Ég hef heyrt í langan tíma að einkaaðilar hafi haft áhuga á að koma inn í sparisjóðakerfið, setja á fót nýja sparisjóði, kaupa stofnfé í þeim sem eru fyrir o.s.frv., en einkaframtakið hefur verið afskaplega svifaseint og lítið hefur gerst í mjög langan tíma.

Síðan skulum við líka gera okkur grein fyrir því hvernig þessi samkeppni er í raun og veru ef við skoðum afl fjármagnsins. Tökum bara sem dæmi: Sparisjóðirnir eiga í heild sinni uppsafnað eigið fé, a.m.k. eins og það var um síðustu áramót, á bilinu 4–5 milljarðar. Berum það saman við eigið fé Landsbankans, þá er ég bara að tala um Landsbankann, sem var um 250 milljarðar (Forseti hringir.) áður en síðasta arðgreiðsla var ákveðin — 250 milljarðar (Forseti hringir.) á móti uppsöfnuðu heildareiginfé allra sparisjóðanna upp á 4–5 milljarða. (Forseti hringir.) Þarna sjáum við hvað fjárhagslegi styrkurinn er gríðarlegur og yfirburðirnir á móti sparisjóðakerfinu í viðskiptabankakerfinu.