144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

nálgunarbann.

[11:07]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í mál sem ég tók eftir í Fréttablaðinu í morgun þar sem konur, sem fjallað er um í þessu tilfelli, hafa verið ofsóttar af eltihrellum, sem mér finnst reyndar allt of grallaralegt orð yfir það sem um ræðir. Oft virðist mikið þurfa að ganga á áður en hægt er að fá nálgunarbann og jafnvel þótt það sé fyrir hendi þá er eins og kerfið ráði ekki við vandann. Þá vitna ég til Kastljóssúttektar fyrir nokkrum mánuðum, jafnvel ári síðan, sem var mjög góður þáttur um konu sem hafði orðið fyrir ótrúlegum ofsóknum af hálfu einhvers manns, hvort það var fyrrverandi sambýlismaður, ég man það nú ekki, og úrræðaleysið var algjört. Í rauninni skipti ekki máli þótt viðkomandi hefði verið dæmdur í nálgunarbann.

Í Fréttablaðinu er rætt um tvö mál og haft eftir yfirlögregluþjóni að málin séu flókin. Það er svo sannarlega rétt. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ef það er ekki nálgunarbann í gildi þá er ekkert sem bannar fólki að vera fyrir utan hús eða að hringja. Það verður þá að vera komið upp á eitthvað ákveðið stig til að hægt sé að meta það sem brot á friðhelgi. Lagaramminn er bara þessi.“

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi mál séu til skoðunar í ráðuneytinu og hvort hún telji að grípa þurfi til einhverra aðgerða og jafnvel breyta lögum til þess að ná betur utan um þennan málaflokk og vernda þá sem verða fyrir ofsóknum, hvort sem það eru fyrrverandi sambýlismenn, sambýliskonur eða aðrir sem fá það á heilann að ofsækja fólk.