144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

nálgunarbann.

[11:11]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Ég er nokkuð ánægð með þau. Ég var svo sem ekki að vísa í neitt sérstakt mál þannig séð heldur koma slík mál alltaf af og til í fréttir og mér finnst full ástæða til að þetta verði skoðað nánar.

Ég er líka að velta fyrir mér, og ég efast um að það sé þannig núna, hvort það sé einhver leið að bjóða gerendum — ég vildi óska að við fyndum annað orð en eltihrellir, mér finnst það ekki gott — sálfræðiaðstoð eða einhverja aðstoð, hvort það gæti verið ódýrasta og einfaldasta leiðin í mörgum tilfellum og hvort gerendum bjóðist eitthvað slíkt í dag til þess að finna út úr sínum málum. Þegar þessi mál eru þannig að gerendum hlýtur að líða jafn illa og þolendum vegna þess að þetta er ekki athæfi sem fólk stundar ef það hefur fulla stjórn á sér og er í góðu andlegu jafnvægi.