144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

nálgunarbann.

[11:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það var svo mikið skvaldur í hliðarsal að ég heyrði ekki alveg upphafið að síðari ræðu hv. þingmanns. Ég vil bæta við það sem ég sagði áðan að ég hygg að hv. þm. Vilhjálmur Árnason hafi mælt fyrir frumvarp í þinginu og það sé til meðferðar í allsherjarnefnd. Þar er ákveðin leið til skoðunar hvað varðar nálgunarbann, sem við höfum aðeins litið á í ráðuneytinu. Ég held að það sé ekki loku fyrir það skotið að nefndin muni skoða það mál eitthvað nánar. Ég held að eðlilegt sé að ráðuneytið geri það jafnframt líka og skoði hvort þar séu einhverjir þættir sem mundu vera til þess að efla viðbrögð við brotum í þessum málaflokki, þannig að því sé svarað.

Síðan varðandi hjálp við gerendur. Ég get lítið tjáð mig um það hér úr þessum stól núna hvernig best er að fara í það. Við vitum að þetta er mjög viðkvæmur málaflokkur og erfitt fyrir þá sem verða fyrir slíku. Auðvitað þurfum við alltaf að reyna að passa upp á það að öll umgjörð sé trygg. Ég get að öðru leyti ekki tjáð mig um það á þessu stigi.