144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:31]
Horfa

Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég ætla að nota tækifærið og þakka fyrir gott samstarf í fjárlaganefnd. Vinna fjárlaganefndar byggist eingöngu á faglegum nótum og pólitík er sjaldnast hleypt þar inn fyrir dyrnar þegar fjárlaganefnd er að vinnu. Það sýnir sig í þessu nefndaráliti hversu samheldin fjárlaganefnd er og hversu mikið og gott starf fer þar fram innan dyra því að allir nefndarmenn eru meðvitaðir um að verið er að fjalla um fjárreiður ríkisins.

Þingmaðurinn fer hér yfir það hvort þessi lokafjárlög séu ekki dæmi um það hversu góðu búi þessi ríkisstjórn tók við eftir kosningar. Jú, það má alveg segja það en þingmaðurinn veit jafn vel og sú sem hér stendur að settur var á stofn hagræðingarhópur og farið í að skera niður kosningaloforð Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þarna fyrir kosningarnar 2013. Það var heilmikið átak, ég viðurkenni það alveg. Maður var ekki alveg sætasta stelpan á ballinu, virðulegur forseti, þarna fyrsta árið þegar við þurftum að taka til baka allar fjárheimildir sem búið var að lofa hringinn í kringum landið. Við þurftum að rifta samningum og við þurftum að draga til baka fjárheimildir og annað slíkt. En sú vinna færði okkur líka þann árangur í fyrstu fjárlagagerðinni að loksins var hægt að skila ríkissjóði með afgangi.

Við vitum alveg hvernig þetta var hér á árum áður, ríkisstjórn kröfuhafa, sem sat hér á undan þessari ríkisstjórn, hafði farið í að skera niður allt heilbrigðiskerfið, fjárveitingar til Landspítalans, til ýmissa annarra viðkvæmra málaflokka sem núverandi ríkisstjórn er heldur betur að bæta upp. Það er mjög gleðilegt að geta komið til móts við þarfir bæði stofnana og landsmanna með þeim aukna árangri sem náðst hefur í ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.