144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:35]
Horfa

Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Það má vel vera að þarna hafi núllpunktinum verið náð, það má bara vel vera, enda var þá búið að skera allt inn að beini hjá síðustu ríkisstjórn. Ég fór yfir heilbrigðiskerfið hér áðan. Það var búið að skera niður lögbundnar greiðslur til ellilífeyrisþega og öryrkja, farið inn í grunnbæturnar. Jú, jú, líklega var ekki hægt að skera meira niður þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fór frá völdum. Það getur vel verið að þarna hafi akkúrat verið þessi núllpunktur sem við tölum um sem þarf að vera í rekstri ríkisins.

En það voru kosningar 2013 og þar var skipt um ríkisstjórn og þessi ríkisstjórn hefur svo sannarlega sýnt að hún ber hag landsmanna fyrir brjósti. Hér er talað um að ríkisstjórnin hafi afsalað sér skatttekjum. Mikið af þessum skatti sem hv. þm. Oddný Harðardóttir fór hér yfir var á þann hátt að það var raunverulega einskiptisskattur, má segja. Það stóð til, líka hjá ríkisstjórn kröfuhafanna, að afnema hann á ákveðnu árabili þannig að raunverulega vorum við bara að feta í fótspor fyrri ríkisstjórnar. Ég vona að við þurfum ekki að fá frekari gagnrýni á það að þessi ríkisstjórn hafi fylgt fyrri ríkisstjórn í ákvörðunartöku varðandi skattlagningu, en sú ríkisstjórn sem situr nú hefur farið í að lækka enn frekar skatta. Það er vitað að með lækkandi sköttum koma frekari tekjur í ríkissjóð og það er bara svo að eftir því sem skattarnir eru lægri þá skapar það ekki þann freistnivanda sem skapast við háa skattheimtu, að svíkja undan skatti.

Framtíðin er björt, þetta er dæmi um það. Fjárlaganefnd öll er á þessu nefndaráliti og ég fagna því einstaklega (Forseti hringir.) vegna þess að stjórnarandstaðan öll sat hjá við afgreiðslu lokafjárlaga 2012 sem sýnir raunverulega hvað stjórnarandstaðan og fráfarandi ríkisstjórnarflokkar höfðu litla trú á ríkisfjármálum 2012.