144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:39]
Horfa

Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef mikinn áhuga á að vita hvað ég sagði hér í fyrra andsvari sem varð til þess að ég var beðin um að gæta orða minna. Var það sú setning sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði sjálfur, um ríkisstjórn kröfuhafanna? (Gripið fram í.) Ég talaði ekki á nokkurn hátt í fyrra andsvari mínu um landráð eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, en þessi þingstörf eru komin á einhvern stað sem ég bara átta mig ekki á hvernig á að taka á raunverulega. Hér flyt ég andsvar, svara spurningum þingmanna og ég er beðin að gæta orða minna. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kemur í ræðustól og talar um landráð o.s.frv. Ég minntist ekki einu orði á landráð, ekki einu orði. Það er misjafn leikurinn hér í þessum ræðustól, það er alveg klárt mál, en við sjáum alveg hreint hvernig þingmenn Samfylkingarinnar, sem hafa talað hér á eftir mér, þurfa að fá hrós fyrir störf fyrri ríkisstjórnar. Þeir koma hér upp og hæla sér, ekki síst hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem talar um að hér hafi verið gott bú. Að sjálfsögðu fagna ég því mjög á hvaða leið ríkisfjármál eru en við skulum líka átta okkur á því að það var Framsóknarflokkurinn sem barðist hér allt síðasta kjörtímabil á móti Icesave.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig ríkisfjármálin væru hefði krafa og ósk Samfylkingarinnar og Vinstri grænna orðið að veruleika, að landsmenn allir og skattgreiðendur hefðu þurft að taka á sig Icesave-klafann, ég veit ekki hvernig við stæðum þá, virðulegi forseti. Kannski á sama stað Grikkir, veit það ekki, kannski ekki af því að við erum svo heppin að vera með eigin gjaldmiðil og erum ekki í evrusamstarfinu.