144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:45]
Horfa

Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að biðja um orðið á eftir og bera af mér sakir en ég ætla að segja það hér í þessu andsvari: Ég sagði aldrei að hér hefðu átt sér stað á síðasta kjörtímabili landráð. Aldrei. Ég sagði aldrei að hér hafi átt sér stað landráð, svo að hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sé svarað hér í eitt skipti fyrir öll. Hann er að reyna að gera mig ótrúverðuga, hann um það, þetta er búið að vera þetta sama „skuespil“ hjá Samfylkingunni síðan ég settist á þing árið 2009. Framsóknarflokkurinn varð stærri í Reykjavík en Samfylkingin í kosningunum 2013 og það svíður, ég sé það. Það svíður.

Virðulegi forseti. Það er verst að hv. þm. Össur Skarphéðinsson situr ekki í forsætisnefnd því að hann vill líka stjórna þinginu, ekki nóg með að Samfylkingin sé alveg hreint að tapa sér yfir því að hafa tapað síðustu kosningum, kosin í burt en reynir enn að stjórna tveimur árum seinna, þá vill hv. þm. Össur Skarphéðinsson líka stjórna þinginu. Hann svíður, sannleikurinn, ég veit það en ég sem þingmaður hef aldrei hlíft sannleikanum hér í þessu húsi. Aldrei. Auðvitað er þetta alveg óskaplega óþægilegt og erfitt fyrir þingmenn Samfylkingarinnar að standa frammi fyrir því núna, þegar samningar við kröfuhafa eru í höfn, að sjá fram á það hverju ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur áorkað. Svo er hér talað um fjölmiðla, að það sé verið að flytja af því fréttir að það sé einhver ofsakæti hjá kröfuhöfum.

Virðulegi forseti. Ég lít ekki svo á að Facebook-síða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sé fjölmiðill, (ÖS: … Fréttablaðið.) alls ekki. Og já, þingmaðurinn vísar í Fréttablaðið, einmitt, við vitum nú alveg hvernig það allt saman er útbúið.

Virðulegi forseti. Ég viðurkenni að þessi umræða er komin niður á ansi súrt plan og fyrir því stendur hv. þm. Össur Skarphéðinsson.