144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er svolítið sérstakt að koma hér í ræðu um lokafjárlög eftir þessi orðaskipti sem hér hafa átt sér stað. Ég hrökk satt að segja við, forseti, þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talaði um ríkisstjórn kröfuhafanna og gerði athugasemd við (Gripið fram í.) hæstv. forseta. Það kom mér á óvart, en hefði kannski ekki átt að gera það, að hv. þingmaður skildi ekki vegna hvers var verið að biðja hana um að haga orðum sínum með betri hætti. Hv. þingmaður áttaði sig ekki á því, það er mjög merkilegt.

Virðulegur forseti. Hér erum við að ræða lokafjárlög sem staðfesta ríkisreikning ársins 2013. Og eins og hér hefur komið fram þá sýna tölurnar, og hv. formaður fjárlaganefndar hefur staðfest það í andsvari, sem er sérstakt, að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við góðu búi, því að þótt tölurnar hafi sýnt þetta hafa forustumenn stjórnarflokkanna, ekki viljað viðurkenna það, en hér stendur þetta svart á hvítu.

Þessi árangur náðist eftir efnahagshrun, stórkostlegt efnahagshrun, og þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna glímdi við algjörlega fordæmalausar aðstæður. Þær má reyndar rekja til efnahagsmistaka Framsóknarflokksins fyrr á árum og Sjálfstæðisflokksins. Vinstri stjórnin náði á aðeins fjórum árum að snúa þessari stöðu við. Það þurfti að grípa til aðgerða sem voru ekki vinsælar, auðvitað þurfti að skera niður en það þurfti líka að afla tekna. Þessi blandaða leið var farin og hún skilaði árangri. Og af því að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talaði um heilbrigðiskerfið áðan þá er það sannarlega viðkvæmt kerfi og fór viðkvæmt inn í kreppuna vegna þess að góðærið hafði því miður ekki skilað sér til heilbrigðiskerfisins. Þegar það þurfti að skera niður eða beita aðhaldi í því kerfi eins og öllum öðrum útgjöldum ríkisins hafði það slæmar afleiðingar. En vinstri stjórnin hætti að skera niður í heilbrigðiskerfinu árið 2012 og náði að gefa til baka með fjárlögum 2013, sem betur fer. Og nú þarf að gefa betur í þegar ríkisfjármálin eru á slíkum stað sem raun ber vitni núna árið 2015. Það væri sannarlega gott ef hægri stjórnin gæti hugsað sér að nýta þennan mikla árangur vinstri stjórnarinnar til þess að efla velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið, menntakerfið og almennt þær stoðir velferðarkerfisins sem þarf að styrkja eftir efnahagshrunið.

Forseti. Þótt ég vilji ekki vera bitur í þessum ræðustóli, þá var það þó þannig að hv. þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili voru, leyfi ég mér að segja, eins og gjammandi hælbítar á eftir ríkisstjórninni þegar hún var að taka hér til eftir efnahagshrun og gerðu okkur sannarlega erfitt fyrir, en þrátt fyrir það náðist þessi góði árangur.

Í andsvari mínu áðan við formann fjárlaganefndar vitnaði ég í Markaðspunkta frá Arion banka sem gefnir voru út 18. ágúst, 2014. Þar er nefnilega ágætur samanburður og þar segir, með leyfi forseta:

„Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2013 var nýverið birt og er afkoma ríkissjóðs mun betri en gert hafði verið ráð fyrir.“

Síðan er rakið hvernig þetta hafi allt saman gengið fyrir sig. Við fjáraukalög árið 2013 þegar nýi stjórnarmeirihlutinn tók við hrópaði hann úlfur, úlfur, og sagði að hér væri allt í rjúkandi rúst og það þyrfti að skera meira niður. Og um leið og þeir sögðu það þá lækkuðu þeir tekjurnar, bæði veiðigjöldin og virðisaukaskatt á ferðaþjónustunni. Þó var alveg ljóst með virðisaukaskattinn af gistiþjónustu, sem átti að fara upp 14% 1. september 2013, að fyrirtækin höfðu gert ráð fyrir hækkun hans í verðlagningu sinni. Það var engin ástæða til þess að halda virðisaukaskattinum þannig að erlendir ferðamenn greiddu ekki virðisaukaskatt, neysluskatt af hótelgistingu í sama hlutfalli og almenningur greiðir fyrir nauðsynjar, fyrir mat og orku. Þetta var því undarleg ráðstöfun. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra kom hér í ræðustól vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og staðfesti það að gisti- og hótelfyrirtækin höfðu gert ráð fyrir þessari hækkun í sínum gjaldskrám og það var engin ástæða til þess að taka þetta af. Og þrátt fyrir þá verðlagningu fjölgaði ferðamönnum meira en nokkru sinni. Svona var þetta.

Forseti. Mig langar til að nota tíma minn í fyrstu ræðu minni til að fara yfir nokkra punkta úr riti um ríkisbúskapinn sem gefið var út haustið 2012 sem sýnir þáttaskilin. Við jafnaðarmenn horfðum á þessi þáttaskil og vildum nýta árangurinn til þess að byggja upp samfélag í anda jafnaðarmanna, í anda réttlætis og jafnræðis. En því miður fengum við ekki, eins og margoft hefur verið sagt hér í þessum sal, það brautargengi. Það voru aðrir flokkar kosnir til þess að fara með þennan árangur, því miður, leyfi ég mér að segja.

Það sem byrjað var á að gera þegar sást til lands og hægt var að skipuleggja fram í tímann var að bæta hag barnafjölskyldna. Það var gert með því að gera áætlun um að lengja fæðingarorlofið í eitt ár, nokkuð sem hægri stjórnin ákvað að taka til baka. En þetta sáu jafnaðarmenn fyrir sér sem mjög mikilvægt skref og að við hefðum borð fyrir báru til þess að fara þá leið. Hægri stjórnin vildi frekar lækka veiðigjöldin og virðisaukaskatt á erlenda ferðamenn.

Annað sem við gerðum var að hækka barnabætur um 30%, eða við gerðum ráð fyrir því að hækkunin yrði 30%, það var í okkar áætlunargerð. Það var vegna þess að alls staðar, allar greiningar sýndu að þær fjölskyldur sem stóðu verst haustið 2012 eða á árinu 2012 voru barnafjölskyldur. Það skipti engu máli hvort það voru barnafjölskyldur sem skulduðu í húsnæði eða voru að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið eða voru leigjendur, þessi hópur stóð verst og þess vegna þurfti að beina fjármunum til hans fyrst tækifæri var til þess, og það var gert. Hægri stjórnin sagði hins vegar fyrir fjárlögin 2014, í fjárlagafrumvarpi 2014, að hún vildi standa vörð um þessa hækkun sem gerð var á árinu 2013 og það gerði hún með því að verðbæta hana ekki, og það er auðvitað ekkert annað en niðurskurður. Sem aðgerð til þess að milda áhrif á hækkun á mat var settur inn milljarður í barnabætur, en þegar upp var staðið þá náði það ekki einu sinni raungildinu sem áætlað var og Alþingi samþykkti fyrir árið 2013. Það var því ekki hægt að tala um þá mótvægisaðgerð við matarskatt sem alvöruaðgerð. Síðan var líka viðmiðum breytt þannig að barnabætur byrja nú að skerðast við 200 þús. kr. hjá einstaklingi, sem er náttúrlega skammarlega lágt. Barnabætur byrja að skerðast um leið og tekjurnar eru orðnar 200 þús. kr. og þegar tekjurnar eru 500 þús. kr. falla þær niður. Þetta er því ekki í anda barnabótahugsunar eins og norrænu samfélögin setja það upp, þar sem hugmyndin er sú að barnabætur séu skattafsláttur til þess að jafna stöðu barnafjölskyldna. Í flestum norrænum ríkjum eru barnabætur ótekjutengdar en við erum langt frá því að vera komin þangað. En þangað ættum við að stefna og sú var hugsunin með því skrefi sem tekið var árið 2013.

Það sem okkur þótti mikilvægt að gera til þess að geta byggt almennilega upp velferðarstoðirnar, þó að við höfum verið byrjuð að gefa til baka í heilbrigðiskerfið eins og ég sagði áðan, reyndar í menntakerfið líka, framhaldsskólakerfið, var að ná auknum tekjum af auðlindunum. Það var afar mikilvægt fyrir þjóð í þeirri stöðu sem við vorum í og erum að við fáum tekjur af auðlindum okkar. Þess vegna var samþykkt frumvarp um veiðigjöld á síðasta kjörtímabili sem hækkaði þau umtalsvert og áttu síðan í þrepum að hækka meira. Útgerðin hefur svo sannarlega staðið undir þeim hækkunum. Og þegar hér var verið að endurskoða veiðigjöldin á árinu 2013 komum við í stjórnarandstöðunni með breytingartillögu sem laut að því að halda upphæðinni en að gefa minni útgerðum meiri afslátt, og það var sjálfsagt að gera það, en að þeir sem gætu svo sannarlega greitt hærri veiðigjöld mundu gera það. Það skiptir máli fyrir okkur að fá beinar tekjur af auðlindum okkar. En einhvern veginn virðist sú ríkisstjórn sem nú starfar ekki átta sig á þessu og vilja flækja málin og haga þeim þannig að það séu stjórnmálamenn sem ákveði hvað útgerðin greiðir af auðlindinni sem hún nýtir.

Fjárfestingaráætlunin var nánast í heilu lagi felld niður en þó ekki alveg, en það sem skipti máli voru byggðaverkefnin, það voru framlög til sóknaráætlunar sem voru reyndar látin standa á árinu 2013 en voru svo skorin niður á árinu 2014 um 75%. Það er byggðastefna hægri manna, hún birtist mjög glögglega í þessari áherslu gagnvart sóknaráætlun landshluta. Að vísu þegar frumvarpið fyrir árið 2014 kom fram áttu þetta að vera aðeins 15 millj. kr. en með breytingartillögum urðu þetta 115 millj. kr. Það sama gerðist svo í frumvarpinu fyrir árið 2015, þá voru það aftur bara 15 millj. kr. Þetta eru byggðasjónarmið hægri manna í hnotskurn.

Virðulegi forseti. Við erum sammála því þegar hægri stjórnin talar um að það sé mikið forgangsverkefni að lækka skuldir og það skiptir mjög miklu máli fyrir skulduga þjóð að ganga á nafnvirði skuldanna. Það eru reyndar ekki sýnilegar áætlanir til þess að lækka nafnverð nema bara sala á eignarhlut í Landsbankanum sem er ekki í augsýn, og svo að hafa lægri gjaldeyrisvaraforða og síðan er núna talað um stöðugleikaskattinn og við vonum sannarlega að hann verði til þess að lækka skuldir en ekki til þess að fara í einhver gæluverkefni rétt fyrir kosningar og auka þenslu. En það er afar mikilvægt að greiða niður skuldirnar og ég tek undir það.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mikið lengri. Enn og aftur vil ég segja að þessi plögg hér sem við ræðum nú, lokafjárlög sem eru staðfesting á ríkisreikningi 2013, eru góður vitnisburður um hvernig staðan var þegar hægri stjórnin tók við. Afkomubati ár hvert var umtalsverður og við höfðum gert ráð fyrir í áætlunum okkar að hann yrði umtalsverður á þessu kjörtímabili líka. Það hefur hins vegar komið í ljós að afkomubatinn er óverulegur og í áætlunum sem koma fram í ríkisfjármálaáætluninni sem hér liggur fyrir þinginu óafgreidd, kemur einnig í ljós að sú áætlun hægri stjórnarinnar að afkomubatinn verði lítill, hann verður umtalsvert minni en á síðasta kjörtímabili. Að sumu leyti er það vegna þess að það er forgangsverkefni hjá þeim eða hefur verið hingað til að lækka skatta og gjöld á þá sem standa sannarlega undir því að greiða skatta og gjöld, og hægri stjórninni finnst líka mikilvægt að gefa svolítinn afslátt af auðlindum þjóðarinnar en taka frekar á þegar kemur að velferðarkerfinu. Í ríkisfjármálaáætluninni er gert ráð fyrir niðurskurði upp á 5,5 milljarða næstu fjögur árin og auðvitað er mjög erfitt að fara í slíkan niðurskurð í kerfi sem hefur þolað slíkan niðurskurð eins og á síðasta kjörtímabili og var óumflýjanlegur. Núna höfum við hins vegar val og hægri stjórnin velur að skera áfram niður um 1–1,5% næstu fjögur árin.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.