144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[12:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns segja að ég skil vel að hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur þyki skrýtið að hafa umræðu um lokafjárlög í því sem hún kallaði þessu sérkennilega andrúmslofti sem leikur um þessa umræðu, en við hverju er að búast þegar hv. formaður fjárlaganefndar hefur umræðuna á því að brigsla tveimur stjórnmálaflokkum um að hafa meðvitað gengið hagsmuna erlendra afla gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar? Við þær aðstæður er ákaflega erfitt að eiga vitræna málefnalega umræðu. En hv. formaður fjárlaganefndar ræður því auðvitað sjálf með hvaða hætti hún haslar völlinn fyrir þessa umræðu.

Mér fannst margt ákaflega athyglisvert sem hv. þingmaður sagði, sérstaklega þegar kemur að tærleika og gagnsæi fjárlagafrumvarpsins. Þar finnst mér sem menn hafi ekki lært af umræðum fyrri ára, hugsanlega vegna þess að við gefum okkur alltaf svo lítinn tíma til að fara yfir þetta. Sem betur fer höfum við góðan tíma til þess í dag að ræða það með ýmsu öðru.

Fyrst vil ég segja að ég er ekki alveg sammála því þegar hv. þingmaður segir að bæði núverandi og fyrri ríkisstjórn hafi sýnt einbeittan vilja til að lækka skuldir ríkissjóðs. Það er alveg rétt í tilviki fyrri ríkisstjórnar. Það er alveg rétt að því er varðar beina túlkun orða sem falla af hálfu núverandi ríkisstjórnar. En þegar maður les það plagg sem hv. þingmaður vísaði til, þ.e. ríkisfjármálaáætlunina, þá kemur einfaldlega í ljós að núverandi ríkisstjórn beinlínis byggir á þeim grunni að ætla ekki að lækka skuldir þangað til kemur að lokum tímabilsins sem áætlunin nær út, nema einungis með því sem við getum kallað óreglulegum liðum eða einskiptisaðgerðum, þ.e. sölu eignarhluta. Telur hv. þingmaður ekki að það sé áhyggjuefni?